Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, tilkynnti í vikunni, að hafið væri tilraunaverkefni þar í landi í þá veru, að skólakrakkar klæddust skólabúningum. Telur forsetinn, að skólabúningar geti gert margvíslegt gagn, m.a. dregið úr stéttaskiptingu og aukið virðingu fyrir skólastarfi.
Fataval er mannréttindi
Hér þarf að koma þeim skilaboðum til Macrons, að hafi hann áhyggjur af stéttaskiptingu, þá er honum ráðlagt að beina þeim í aðra átt en fatavali fólks. Smekkur og stíll í klæðaburði fer sjaldnast eftir stéttarstöðu eða fjárhagslegri getu heldur frumleika og sköpunargleði. Enn fremur telst það til mannréttinda að fá að klæðast fötum í samræmi við eigin smekk, stíl og persónuleika. Það eru líka mannréttindi að fá að njóta allrar þeirra fjölbreytni, sem birtist í alls kyns tilbrigðum í fatavali og klæðnaði skólafélaganna, heldur en að upplifa skólastofuna eins og herdeild á stríðstímum.
Skólabúningar uppræta ekki einelti
Stundum er því haldið fram skólabúningar dragi úr einelti. Vissulega getur klæðaburður orðið tilefni eineltis en þá veita skólabúningar enga vörn. Eineltismál er flóknari en svo. Athyglinni er einfaldlega beint annað svo sem að hárgreiðslu viðkomandi eða vaxtarlagi. Enda mætti furðu sæta ef hægt væri að draga úr ofbeldi með hugmynd sem upprunalega er fengin að láni úr hernum.
Bæði reynsla og ýmsar rannsóknir sýna alls kyns neikvæðar afleiðingar þess að fyrirskipa nemendum að klæðast sömu fötunum árum saman. Til að mynda er þekkt að skólabúningar stuðli að mótþróa hjá fjölmörgum nemendum, sem aftur leiðir til lakari námsárangurs en ella væri. Hverjum finnst spennandi að klæðast búningum sem þeim finnst bæði ljótir og óþægilegir? Hvað gengur mönnum eins og Macron til að ráðast á persónufrelsi fólks með slíku offorsi? Hvers má vænta næst? Kröfur um tiltekna hársídd eða klippingu?
Greinin birtist fyrst á Vísi þann 18. janúar 2024.