Frá fyrstu tíð höfum við Grindvíkingar sem börn leikið okkur í sprungum, í hellum og gjótum í hrauninu umhverfis Grindavík. Leikvöllur okkar var hraunið, bryggjan, fjaran, Þorbjörn og Ægissandur, við klifruðum í fjöllum, sváfum úti, syntum í sjónum, hlupum undan öldum og vorum úti allan daginn.
Lífið var ekki hættulaust, við meiddum okkur, sýndum varkárni og síðan tókum við að varast hætturnar.
Síðan tók sjórinn við og enn meiri hættur, kaðlar og vírar, net og troll, sífelld hætta að flækja sig í spilbúnaði, festast í tógi, skera sig eða klemmast eða kastast fyrir borð.
Sjórinn gaf og sjórinn tók, ungir menn og karlar misstu lífið og við minnumst þeirra ætíð af ást og hlýhug.
Grindvíkingar eru vanir náttúruöflunum, við erum vön hættum og við kunnum að varast hættur.
Girða þarf af sprungusvæðin sem eru hættuleg og fleyga þau niður og fylla, við erum með ofboðslega góða Grindvíkinga sem klára það á réttan hátt.
Heilu hverfin í Grindavík eru meira og minna hættulítil eða hættulaus, nánast er hægt að keyra allar götur, almenn skynsemi, lífsreynsla og varkárni er það eina sem þarf.
Það þarf að hleypa íbúum Grindavíkur heim til að athuga með sín hús, ná í sínar búslóðir ef þeir vilja og þá ætti að aðstoða af öllum mætti. Slökkvilið, Björgunarsveitir og vanir heimamenn sem sjálfboðaliðar, gætu leiðbeint og aðstoðað við burð og flutninga.
Þetta er allt lokað enn þann dag í dag.
Fyrirtæki opnuðu sinn rekstur smátt og smátt, keyptu inn hráefni og kælivöru og fóru að þjónusta. Þetta hráefni er allt ónýtt, ekki mátti fara í fyrirtækin og bjarga vörum.
Þetta er allt lokað enn þann dag í dag.
Fiskvinnslur byrjuðu að flaka og fletja fisk og salta eða flytja út ferskt, miklar birgðir liggja í léttsöltuðum afurðum sem ekki má ná í eða vinna. Þessar dýrmætu vörur liggja undir skemmdum.
Þetta er allt lokað enn þann dag í dag.
Ferskfiskvinnslur, slægður fiskur ísaður í kör, flök í frauðkössum og aðrar vörur upp á tugi tonna eru allar ónýtar og lykta, ekki mátti flytja þær burt.
Þetta er allt lokað enn þann dag í dag.
Fréttamenn og aðrir valsa um svæðin og hnjóta um grjót eða stíga í holu, Benni píp líka og úr verða dramafréttir sem eru ekki lýsandi um ástand Grindavíkur en valda ugg og kvíða, alið er á slæmum fréttum og bænum haldið í herkví.
Bærinn okkar elskulegi er skemmdur víða og mörg hús sprungin og skökk og önnur ónýt.
Langstærsti hluti fasteigna er samt óskemmdur og er íbúðahæfur þegar lagnir eru komnar í lag.
Það sagði mér björgunarsveitamaður fyrir vestan að ef í dag myndi falla snjóflóð myndi enginn bjargast. Tíminn sem Amannavarnir tæki til að meta aðstæður og að koma með hættumat ylli því.
Almannavarnir og aðgerðastjórn fara offari í lokunum.
Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu Stefáns Kristjánssonar þann 21. janúar 2024. Hann hefur fengið góðar undirtektir frá Grindvíkingum og öðrum. Tæplega 50 manns hafa deilt honum og á fjórða hundrað líkað við hann.