Ég er að hlusta á gamla hljómplötu, flutning Berlínarfílharmóníunnar frá 1985 á „1812“ forleik Tsjaíkovskís. Upptakan er gerð tæpum 40 árum fyrir innrás Rússa í Úkraínu, næstum 40 árum eftir umsátur Þjóðverja um Leníngrad; Berlínarmúrinn klýfur borgina og fall hans ekki í sjónmáli; hápunktur Kalda stríðsins. Stórkostleg rússnesk tónlist, samin til minningar um enn eitt stríðið milli austurs og vesturs, flutt af framúrskarandi vestur-þýskri hljómsveit; gömlu andstæðingarnir, og á þessum tíma enn andstæðingar, en sameinaðir í listinni.
Fyrir nokkrum vikum aflýsti Fílharmóníuhljómsveit Cardiff tónleikum þar sem flytja átti forleikinn og sagði það „óviðeigandi á þessum tímum“. Um alla Vestur-Evrópu hefur viðburðum með þátttöku rússneskra listamanna verið aflýst og sumum hefur jafnvel verið sagt upp störfum.
Hugsandi maður sem efast – hræddur fjöldi sem hlýðir
Í grein í bókmenntatímaritinu Granta árið 1984, A Kidnapped West or Culture Bows Out, skilgreindi rithöfundurinn Milan Kundera evrópska menningu þannig að hún einkennist af „ákvörðunarvaldi hins hugsandi einstaklings sem efast og listsköpun sem tjáir sérstöðu hans.“ Hins vegar „gæti ekkert verið meira framandi Mið-Evrópu og ástríðu hennar fyrir fjölbreytileika en Rússland: samræmt, staðlað, miðstýrt, staðráðið í að umbreyta hverri þjóð heimsveldisins … í eina rússneska þjóð … og á austurlandamærum vestursins – allra helst þar – Rússland sjáum við ekki aðeins sem hvert annað evrópskt stórveldi heldur sem sérstaka menningu, aðra menningu.“
Greinin varð kveikja að ritdeilu milli Kundera og rússneska skáldsins og andófsmannsins Jósefs Brodskí, sem andmælti skoðunum Kundera af krafti. Kjarni evrópskrar siðmenningar, samkvæmt Brodskí, er ekki vestræn einstaklingshyggja nútímans, menning sem fyrir honum hefur glatað sambandi við rætur sínar, heldur kristin trú. Hin sanna barátta er „milli trúarinnar og nytjahyggjunnar“.
Nú sjáum við þessa togstreitu lifna við, lítum bara á nýlega rökræðu heimspekinganna Bernard-Henri Lévy og Aleksandr Dugin. Þar sést sama togstreitan milli andstæðra heimsmynda og lítill vafi á að hún muni eflast. Því heimurinn er að breytast; við lifum enn á ný á áhugaverðum tímum. Og eflaust mun heimssýn Brodskís öðlast aukið vægi, ekki að ástæðulausu; við höfum séð það svo skýrt á undanförnum tveimur árum hversu auðveldlega hinn hugsandi maður sem efast, forsenda hins frjálsa vestræna samfélags, lýtur í lægra haldi fyrir hinum hrædda fjölda sem hlýðir.
Aðeins herbúðirnar skipta máli
Eins og bent var á í nýlegri grein á vefmiðlinum Reason var Tsjaíkovskí „einn fyrstu, örfáu rússnesku tónskáldanna sem sneru baki við rússneskri þjóðernishyggju og helguðu tónlist sína vestrinu, og varð að mati margra sagnfræðinga ein af fáum brúm milli rússneskrar og evrópskrar listsköpunar.“ Þetta var Berlínarfílharmóníunni ljóst árið 1985.
En nú sjáum við engan mun á Pjotr Iljitsj Tsjaíkovskí og Vladimír Putín. Engan mun á tónskáldinu sem aðhylltist vestrænan húmanisma og fyrrum KGB-manninum sem varð einræðisherra. Sá síðarnefndi réðist inn í Úkraínu. Tónlist þess fyrrnefnda má því ekki flytja. Hvers vegna? Vegna þess að þeir eru af sama þjóðerni og tala sama tungumál. Einstaklingurinn skiptir ekki lengur máli, aðeins herbúðirnar skipta máli; heimurinn er svarthvítur.
Innrás Napóleons í Rússland árið 1812 var einn stærsti harmleikur hernaðarsögunnar. Aðeins sjötti hluti hins 600.000 manna franska hers komst lífs af. Rússar misstu yfir 200.000 menn. Innrás Hitlers í Rússland tæpum 140 árum síðar var harmleikur af svipaðri stærðargráðu. Napóleon og Hitler voru einræðisherrar sem vanmátu andstæðinga sína, réðust á nágrannaríki og biðu niðurlægjandi ósigur. Rétt eins og margir telja að Pútín muni líklega gera í Úkraínu núna.
Eins og Tolstoj vitnar um í Stríði og friði varð engin breyting á hollustu Rússa við franska menningu jafnvel þegar stríðið við Napóleon stóð sem hæst. Aðallinn hætti ekki að tala frönsku. Franskir tónlistarmenn og einkakennarar voru ekki reknir úr starfi. Franskar bækur voru ekki brenndar.
Þá þekkti fólk enn og skildi skilin á milli menningar og stjórnmála. Það vissi að listin er óháð þjóðerni, gildi hennar ræðst ekki af því hver stjórnar landinu þar sem hún var sköpuð og jafnvel grimmdarverk stríðsins menga hana ekki; hún er hafin yfir einræðisherrana.
„1812“ aldrei betur við hæfi
En ákvarðanir eins og sú sem tekin var í Cardiff koma okkur ekki einu sinni á óvart í dag. Við erum orðin of vön því að listamenn, rithöfundar og tónlistarmenn séu útilokaðir, verk þeirra bönnuð, af ástæðum sem hafa ekkert með list þeirra að gera. Við hneykslumst vissulega á framferði Pútíns og finnum til með þeim sem nú særast og deyja. Við kunnum að styðja harðar refsiaðgerðir og jafnvel ásaka rússnesku þjóðina fyrir að hafa ekki losað sig við einræðisherrann. En án hinnar sjálfhverfu kröfu okkar tíma um líf án áhættu og áskorana, án hugsunar og ábyrgðar, sem í eðli sínu er andstæða sannrar menningar, hefði Cardiff Fílharmónían ekki aflýst flutningi verka Tsjaíkovskís, stríð eða ekkert stríð.
Því mikil list sameinar okkur, þvert á landamæri og þjóðerni. Ekki á sama hátt og æstur múgur sameinast á grunni lægsta samnefnarans; hún sameinar okkur sem hugsandi einstaklinga. Hún kann að vekja erfiðar tilfinningar, Hún kann að þvinga okkur til að endurskoða afstöðu okkar, líf okkar, en á endanum er það þar sem raunverulegt gildi hennar liggur. Og á stríðstímum ætti að hampa listinni, ekki útiloka hana.
Þema „1812“ forleiks Tsjaíkovskís er skelfilegur atburður sem átti sér stað þegar einræðisherra missti raunveruleikaskynið. Einmitt vegna þess er aldrei betur við hæfi að flytja hann en einmitt núna, þegar enn einn einræðisherrann hefur gengið of langt. Ef við skiljum þetta ekki merkir það að við höfum misst samband okkar við þau gildi sem við grundvöllum menningu okkar á. Í stað þeirra kemur „hatursvikan“ sem Orwell lýsir í 1984. Nú er hún helguð tónlist Tsjaíkovskís.
Einstaklingur Kundera sem hugsar og efast tæki aldrei þátt í „hatursviku“, hann myndi aldrei útiloka listamenn neinnar þjóðar, hvaða voðaverk sem núverandi valdhafar hennar kynnu að fremja. Þess í stað myndi hann standa keikur gegn myrkraöflunum; og þegar allt kemur til alls eru það sömu öflin sem liggja að baki yfirgangi einræðisherrans og yfirgangi múgsins sem útilokar og bannar listina. Hvað getum við þá gert? Ég veit aðeins hvað ég mun gera. Ég mun halda áfram að hlusta á Tsjajkofskíj, í mínu eigin persónulega andófi gegn villimennskunni, hvaðan sem hún kemur og hverjir sem að henni standa.
Greinin birtist upphaflega á ensku hjá Brownstone Institute.