Greinar

  • Tilnefning Roberts Kennedy til heilbrigðsráðherra

    Tilnefning Roberts Kennedy til heilbrigðsráðherra

    Tilnefning Donalds Trump á Robert F. Kennedy yngri sem heilbrigðisráðherra hefur valdið miklum verðlækkunum á hlutabréfum Moderna, Pfizer og Novavax. Hlutabréf í Moderna féllu um 7% eftir tilkynningu um að RFK Jr. yrði heilbrigðisráðherra, hlutabréf Pfizer lækkuðu um 3% og Novavax sá hlutabréf sín falla um 5%. Hugmyndin um að einn af þekktustu efasemdamönnum Bandaríkjanna…

    Lesa meira.

  • Frambjóðendurnir og dómnefndin

    Frambjóðendurnir og dómnefndin

    Ég var spurð í sumar hvort ástæðan fyrir því að gagnrýnisraddir fá stundum ekki undirtektir eða meðbyr almennings hljóti ekki að vera sú að málflutningurinn sé bara ekki nógu öflugur og nái því ekki til fólks. Þessu var ég ósammála. Helstu sérfræðingar heimsins geta verið sammála um ýmis álitamál en ná samt ekki alltaf að…

    Lesa meira.

  • Gervigreind fyrir 40 árum – gervigreind nú

    Gervigreind fyrir 40 árum – gervigreind nú

    Þrátt fyrir að núverandi gervigreindarsumar sé bjartara en nokkru sinni fyrr, eru uppi áhyggjur af því hvort þessi uppsveifla muni leiða til annars gervigreindarvetrar. Saga gervigreindar hefur sýnt að væntingar fara oft fram úr raunveruleikanum, og mörg loforð sem gefin eru í dag

    Lesa meira.


Um Krossgötur

Það hefur komið glöggt í ljós á síðustu tæpu þremur árum að það frjálsa og opna samfélag sem við töldum okkur búa í á Vesturlöndum stendur á krossgötum. Þvinganir gagnvart daglegu venjubundnu lífi fólks, fordæmalausar áróðursherferðir og innræting af hálfu stjórnvalda, og síðast en ekki síst þöggun og útilokun þeirra sem ekki fylgja hinni opinberu forskrift, allt gengur þetta þvert gegn þeim hugsjónum um lýðræði og mannréttindi sem liggja til grundvallar lýðræðisþjóðfélögum nútímans.

Það hversu auðvelt hefur reynst að fá almenning til fylgilags við höft og frelsisskerðingar og hversu almennt það viðhorf er orðið að sjálfsagt sé að skerða tjáningarfrelsi fólks á grunni vafasamrar skírskotunar til almannahagsmuna eða lýðheilsu, sýnir að hugsjónin um ófrávíkjanleg mannréttindi á verulega undir högg að sækja. Þegar slíkt gerist er leiðin til alræðis greið. Þetta höfum við séð áður, og við höfum séð afleiðingarnar.

Tjáningarfrelsið er grunnstoð alls annars frelsis og réttinda. Það er einnig grunnstoð lýðræðisins – það getur ekki þrifist án frjálsrar umræðu.

Við stöndum á krossgötum. Við getum valið hinn breiða veg hlýðninnar í skiptum fyrir þau fallvöltu þægindi sem felast í því að láta hugsa fyrir okkur. Eða við getum valið hinn þrönga veg, látið eigin stundarhagsmuni og þægindi víkja fyrir baráttunni fyrir réttinum til að tjá okkur, réttinum til að hugsa, til að efast, til að móta í sameiningu framtíð sem er manninum samboðin. Vefmiðillinn Krossgötur hefur það hlutverk að vekja almenning til meðvitundar um mikilvægi málfrelsis og persónufrelsis og að skapa vettvang fyrir gagnrýna umræðu um mikilvæg málefni sem varða framtíð samfélagsins. Þetta hyggjumst við gera með greinaskrifum, viðtölum og með því að bjóða upp á umræðuvettvang. Við hvetjum fólk til að senda okkur greinar og ábendingar. Krossgötur taka ekki afstöðu til hægri né vinstri, en eðli málsins samkvæmt er miðlinum ekki ætlað að vera vettvangur fyrir deilur um íslenska flokkapólitík. Krossgötur eru ritstýrður miðill og ritnefnd áskilur sér rétt til að velja og hafna efni og ritstýra í samráði við höfunda, auk þess sem ritnefnd mun þýða og birta efni frá innlendum og erlendum samstarfsmiðlum.

Vefmiðillinn Krossgötur er rekinn af félagasamtökunum Málfrelsi.


Um félagið

Með upplýsingunni á 18. öld tóku samfélög Vesturlanda að þróast í nýja átt, þar sem frjáls og opin umræða, gagnrýnin hugsun og umburðarlyndi voru sett í öndvegi, ásamt hugmyndum um almenn mannréttindi. Þessar hugmyndir leggja grunn að frjálsu samfélagi þar sem áhersla er lögð á möguleika einstaklingsins til að þroskast og leita sannleikans á eigin forsendum.

Frjálst lýðræðissamfélag grundvallast á ákvörðunarvaldi hins hugsandi einstaklings sem efast. Frjáls rökræða er forsenda framþróunar í samfélagsmálum, vísindum og fræðum. Hún er grundvallarforsenda gagnrýninnar hugsunar, sem er aftur nauðsynleg forsenda virks lýðræðis. Gagnrýnin hugsun á nú mjög undir högg að sækja, þegar stjórnvöld og stórfyrirtæki hafa tekið höndum saman um að hefta opna umræðu og frjáls skoðanaskipti.

Þessi aðför að tjáningarfrelsinu hefur orðið sérstaklega áberandi síðan kórónuveirufaraldurinn hófst. Víðsvegar um heim hefur ítrekað verið þaggað niður í vísindamönnum sem gagnrýna stefnu yfirvalda. Upplýsingum er haldið leyndum, röngum eða villandi upplýsingum komið markvisst á framfæri og yfirvöld leitast við að hafa bein áhrif á umfjöllun fjölmiðla. Þetta bætist ofan á þá þöggun, af meiði pólitískrar rétthugsunar, sem þegar hefur fest rætur í vestrænum samfélögum.

Við tjáum okkur ekki aðeins í orðum, heldur einnig líkamlega, og tjáning grundvallast að miklu leyti á beinum samskiptum. Þau höft á eðlileg samskipti fólks sem fengið hafa að viðgangast að undanförnu fela því í sér harðari atlögu að tjáningarfrelsinu en áður hefur þekkst.

Þeim gildum og réttindum sem liggja til grundvallar frjálsu lýðræðissamfélagi ber ekki að taka sem sjálfsögðum. Andvaraleysi getur auðveldlega leitt til þess að þau glatist. Gleymum því ekki að formæður okkar og forfeður þurftu að berjast fyrir þeim réttindum sem við njótum nú. Mörg þeirra lögðu jafnvel líf sitt að veði.

Málfrelsi er stofnað í þeim tilgangi að standa vörð um opna og frjálsa umræðu og ákvörðunarvald hins hugsandi einstaklings sem efast; undirstöðu frjáls lýðræðissamfélags. Félagsmenn stuðla að vitundarvakningu og vekja fólk til umhugsunar með útgáfu, fundahöldum, greinaskrifum og þátttöku í samfélagsumræðu.

Skráning í félagið

Hægt er að skrá sig í félagið Málfrelsi – Samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi hér að neðan.

Meðlimir fá sendan tölvupóst með upplýsingum um starfsemi félagsins og útgáfu þess. Auk þess eru þeir hvattir til að kynna sér samþykktir félagsins.