Piers Corbyn handtekinn við Speakers Corner í maí 2020 fyrir að andmæla sóttvarnaraðgerðum.
Eftir 300 ár er upplýsingaröldin liðin undir lok.
Þessi háfleygu orð skrifaði Dr. Martin Kulldorff í október 2020, er hann horfði upp á samfélagsmiðilinn Twitter þagga niður í kollega sínum, Dr. Scott Atlas, með því að fjarlægja tvö málefnaleg tíst eftir hann.
Á upplýsingaröldinni var hvatt til málfrelsis, opinberrar rökræðu og skoðanaskipta. Sem minnisvarði þess tíma er svolítill kassi í Hyde Park í London sem hver sem er mátti til skamms tíma stíga á og halda tölu um hvað sem viðkomandi lá á hjarta á meðan slík ræða var lögleg. En arfleifð upplýsingaraldarinnar lifir ekki lengur. Síðastliðin þrjú ár hefur ítrekað verið þaggað niður í vísindamönnum og öðrum sem dirfast að tjá skoðanir sem samræmast ekki hinni heilögu ríkisskoðun.
Þeim og efni þeirra hefur verið hent út af samfélagsmiðlum. Ærumeiðingaratlögur hafa verið gerðar gegn þeim. Þeir hafa verið hraktir úr störfum sínum, þurft að sæta hótunum og ofsóknum. Skoðanasystkini þeirra þegja af ótta við slíka meðferð.
Á meðan er almenningur mataður á einhliða áróðri.
Samfélag sem líður slíka hegðun er á háskabraut.
G.K. Chesterton skrifaði:
Það er aðeins ein hugsun sem stöðvar alla aðra hugsun. Þessi hugsun er sú eina sem ber að stöðva.
Hvort hann hafi verið að hugsa til ritskoðunar og þöggunar er hann færði orðin á blað veit ég ekki. En þau eiga vel við.
Framtíð lýðheilsu
Dr. Jay Bhattachrya fjallaði um sumt af ofangreindu í meðfylgjandi ræðu um framtíð lýðheilsu, sem mér varð hugsað til fyrir fáum dögum, er ég svaraði athugasemd um viðfangsefnið [2].
Í ræðunni útskýrir hann að heilbrigðisvísindi og lýðheilsufræði séu háð trausti almennings. Án þessa trausts fæst ekkert samstarf. Valdboð dugar skammt og grefur enn frekar undan þessu trausti. Áhrif þöggunar og kúgunar eru þau sömu. Það sama á við um aðgerðir sem yfirvöld beita í nafni lýðheilsu (og sóttvarna), sem valda meira heilsufarslegu tjóni en þær koma í veg fyrir.
Dr. Bhattacharya hefur tileinkað líf sitt lýðheilsu. Hann vill meina að almenningur um allan heim hafi misst trú á lýðheilsu og heilbrigðisyfirvöldum. Það mun taka mörg ár að endurvekja það traust.
Grundvallast réttarríkið einungis á arfleifð upplýsingarinnar?
Sóttvarnarstefnu flestra ríkja hefur verið framfylgt með valdboði í nafni lýðheilsu. Í réttarríki geta yfirvöld ekki þvingað fólk til hlýðni. Þau neyðast til að sannfæra það til að hlýða. Það krefst opinberrar umræðu, gagnsæis og trausts. Þannig helst réttarríkið hönd í hönd við upplýsingaröldina og málfrelsið. Þetta tvennt stendur saman og hrynur saman.
Atlaga hefur verið gerð að málfrelsinu og réttarríkinu. Komandi ár munu snúast um að standa vörð um þessar grunnstoðir okkar samfélags og menningar, og að endurvekja upplýsingaröldina. Afnám sóttvarnaraðgerða mun ekki koma í veg fyrir að gripið verði til svipaðra aðgerða aftur, og því verk að vinna að reisa múra í kringum borgaralegt frelsi, þar á meðal málfrelsið.