Í upphafi faraldurs 2020 viðraði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir svipuð sjónarmið og Anders Tegnell starfsbróðir hans í Svíþjóð. Þórólfur mælti eindregið gegn aðgerðum á borð við landamæralokanir, grímuskyldu og síðast en ekki síst var Þórólfur almennt andvígur tilraunum til stöðva faraldurinn algerlega.
Í mars 2020 segir Þórólfur á fundi með samstarfsmönnum sínum (birt í Stormi í Ríkissjónvarpinu):
Við erum ekki að reyna að stoppa faraldurinn algjörlega. Við getum það ekki. Af hverju erum við ekki að reyna það? Jú ef við myndum gera það þá myndum við bara fá toppinn seinna.
Kínverjar gefa tóninn
Eins og menn þekkja var Íslandi engu að síður skellt í lás. Hömlur voru settar á atvinnulíf, skólastarf og íþróttir. Grímuskylda var tekin upp. Skimunum, smitrakningu, sóttkví og einangrun beitt af miklu kappi í von um að útrýma veirunni. Viðteknum vísindalegum viðbrögðum var ýtt til hliðar og nýjar aðferðir teknar upp eftir kínverskum stjórnvöldum. Hvers vegna þetta gerðist er óljóst og verður ef til vill aldrei skýrt að fullu. Tillögurnar um þetta voru sóttvarnalæknis en ákvörðunin ríkisstjórnarinnar.
Sem frægt varð héldu Svíar sig hins vegar að mestu leyti við hin hefðbundnu viðbrögð við faraldri. Þeir beittu fræðslu og almennum tilmælum í stað boða og banna. Þeir treystu almenningi til að sýna ábyrgð og skynsemi. Þessi stefna þeirra var almennt fordæmd í fjölmiðlum sem flestir kröfðust harðari aðgerða.
Krafa vestrænna fjölmiðla var að stjórnvöld væru minna eins og Svíþjóð en meira eins og Kína!
Toppurinn kom seinna
Íslenski sóttvarnalæknirinn sagði í maí 2020 af ef Ísland hefði farið sænsku leiðina hefðu allt að 70 getað látist hér á landi. Um 400 Íslendingar létust vegna Covid á síðasta ári að mati landlæknis. Því miður rættist það sem Þórólfur sagði í upphafi að allar tilraunir til að stöðva faraldurinn myndu enda með toppi síðar.
Það er sorglegt að læknirinn hafi gert sér góða grein fyrir því í upphafi hve gagnslausar þessar tilraunir til að stöðva faraldurinn voru en samt fetað þá slóð. Ekkert sérstakt bendir nú til að að dauðsföll hefðu orðið fleiri án þessara fokdýru tilrauna til að stöðva faraldurinn.
Svíar með einna fæst umframdauðsföll
Breska hagstofan (ONS) metur umframdauðsföll á Íslandi svipuð og í Svíþjóð frá 2020 fram á mitt ár 2022. Sænska hagstofan telur aukin umframdauðsföll nær tvöfalt meiri á Íslandi en í Svíþjóð á árunum 2020 – 2022. Hún segir Svía með minnsta umframdauðann í Evrópu á þennan mælikvarða. The Spectator er á sama máli í gagnlegri samantekt um þessi mál.
Umframdauði á árunum 2020 – 2022 að mati The Spectator.
Vert er að taka fram að mat á umframdauða er að nokkru háð þeim forsendum sem menn gefa sér s.s. viðmiðunartímabili og áhrifum undirliggjandi þróunar og aldursdreifingar. Þar er engin ein algild eða fullkomin aðferð. Því má búast við að sjá fleiri álit á umframdauða á næstunni þar sem Svíar eru ekki endilega lægstir. Stóru drættirnir eru hins vegar ljósir fyrir árin 2020-2022. Svíar komu vel út úr faraldrinum án þess að varpa mannréttindum fyrir róða.
Heyrum við fagnaðarlæti?
Vonandi taka menn þessum tíðindum af velgengni Svía fagnandi. Er ekki ánægjuefni að best sé að kljást við faraldur án þess að grípa til kínversku sóttvarnaráðanna? Er ekki gleðilegt að gömlu góðu sóttvarnavísindin séu í fullu gildi?
Greinin birtist fyrst á Andríki