
Fyrir einhverjum árum síðan var ég staddur í brúðkaupi góðs vinar, náunga sem allir virtust vera hrifnir af. Hann var/er auðmjúkur, tillitssamur, góður og jarðbundinn. Ég man að ég sagði móður hans í brúðkaupinu að ég myndi segja við alla: “Ef þér líkar ekki við hann, þá ert þú vandamálið.”
Ég hef sömu skoðanir á heilsuhagfræðingnum Jay Bhattacharya hjá Stanford. Tilnefning Donalds Trump á Jay sem forstjóra National Institute of Health hefur átt langan aðdraganda og er vonandi merki um að stefnumörkun í læknisfræðirannsóknum taki að batna.
Jay hafði rétt fyrir sér varðandi allar helstu málaflokka meðan á Covid-faraldrinum stóð og var mikilvægur andstæðingur eyðileggjandi áhrifa lokana og harðrar stefnu heilbrigðisyfirvalda og vísindamanna í Bandaríkjunum. Ásamt Martin Kulldorff og Sunetra Gupta tók Jay gríðarlega persónulega og faglega áhættu með því að semja Great Barrington-yfirlýsinguna í október 2020. Til að bregðast við mjög aldursskiptri dánartíðni Covid-19 og hættunni á alvarlegu aukatjóni af áframhaldandi lokunum, boðaði GBD í staðinn stefnu um markvissa vernd fyrir viðkvæmt, háaldrað fólk og veikt fólk meðan ungu og heilbrigðu fólki væri leyft að lifa lífi sínu.
Búist var við því að veiran myndi sýkja alla á endanum og koma á hjarðónæmi og engar vísbendingar voru um að bóluefni (ekkert samþykkt á þeim tíma) myndi stöðva þetta náttúrulega ferli. Stóra spurningin var hvernig ætti að bregðast við náttúruhamförum án þess að gera ástandið miklu verra. Þannig snerist umræðan um markvissa vernd á móti ómarkvissri vernd – að hlífa öllum, óháð hugsanlegri hættu á dánartíðni eða alvarlegum sjúkdómum, þar til hægt var að bólusetja alla íbúana með bóluefni með óþekktri virkni og hreinum ávinningi.
Það er allavega umræðan sem hefði átt að eiga sér stað. Því miður gerðist það ekki. Ráðist var á Jay og GBD meðhöfunda hans, þeim var hótað og farið af stað með rógburð um þá. Þegar rannsóknarhópur Jay birti rannsókn sem sýndi að útbreiðsla Covid-19 í Santa Clara sýslu í Kaliforníu var mun meiri en áður var talið, var blekkingin um að hægt væri að útrýma vírusnum hrakin, að hægt væri að hafa stjórn á honum yfirhöfuð. Margir vildu ekki heyra það og Jay varð fyrir fjölmörgum árásum í fjölmiðlum, þar á meðal ærumeiðandi grein í BuzzFeed þar sem fullyrt var að hann væri fjármagnaður af vafasömum öflum og gefið í skyn að hann notaði vafasamar aðferðir vegna þess að hann væri hlutdrægur í garð niðurstöðu rannsóknarinnar.
Sú staðreynd að hann gaf skömmu síðar út rannsókn sem sýndi mjög lága útbreiðslu á leik í Major League Baseball var ekki nóg til að sanna hlutlægni hans. Skilaboðin sem lýðheilsustöðin setti fram voru einfaldlega að hafna allri gagnrýni eða umræðu. Stefnan varð að knýja fram The Science™ narratívið og aðrir vísindamenn áttu sko ekki að fá að stýra stefnunni.
Ég skrifaði undir Great Barrington-yfirlýsinguna daginn sem hún var birt 4. október 2020. Ég hafði séð, og var mjög hrifinn af, viðtölum við Jay eftir Peter Robinson í mars og apríl 2020 og fann fyrir hughreystingu yfir þeirri þekkingu og auðmýkt sem Jay sýndi af sér. Jay lýsti í einu af þessum viðtölum óvissunni um fjölda smitaðra og fullyrðingum sérfræðinga eins og Anthony Fauci um dánartíðni sýkinga:
Þeir vita það ekki og ég veit það ekki. Við ættum að vera alveg hreinskilin varðandi það. Og við ættum að vera hreinskilin um það við fólk sem tekur þessar stefnumótandi ákvarðanir þegar þær eru teknar. Í vissum skilningi tengir fólk verstu tilfellin inn í líkönin sín, það spáir tveimur til fjórum milljónum dauðsfalla, dagblöðin pikka upp tvær til fjórar milljónir dauðsfalla, stjórnmálamennirnir verða að bregðast við og vísindalegur grundvöllur þessarar spár… það er engin rannsókn að baki þessari spá.
Þegar spurt var um möguleika á tjóni vegna lokanna: „Þetta eru ekki dollarar á móti mannslífum, það eru líf á móti mannslífum.“ Það var nauðsynlegt að fólk myndi átta sig á ábyrgðinni á að forðast tjón vegna lokunar, en lítið varð vart við það. Ráðist var á Jay fyrir þessi heildrænu skilaboð. Hann fékk tölvupósta frá samstarfsmönnum og stjórnendum sem sögðu honum að það væri ábyrgðarlaust að efast um háa dánartíðni sjúklinga. Samt varð einhver að gera það. Hins vegar fóru viðtölin á netið, vegna þess að Jay gaf milljónum manna eitthvað sem þeir áttu ekki og þurftu sárlega á að halda. Hann gaf þeim von.
Þegar leið á árið varð Jay andlitið út á við fyrir andstöðu fólks gagnvart ómarkvissri vernd, kom fram í óteljandi viðtölum og skrifaði óteljandi greinar. Hann varð ráðgjafi ríkisstjóra Flórída, Ron DeSantis, sem hét því að koma ekki af stað lokunum aftur í Flórída eftir fyrstu bylgju lokunar. Þegar öldur Covid gengu óhjákvæmilega yfir Flórída, sendu nemendur við Stanford frá sér samsettar myndir af Jay við hliðina á gröfum yfir dánartíðni í Flórída, sem gaf í skyn að málflutningur Jay væri ástæða dauða þúsunda manna. Þegar aldursleiðrétt dánartíðni Flórída endaði með að vera nær meðaltali samanborið við önnur ríki, þ.m.t. Kaliforníu þar sem allt var harðlokað lengst af, baðst enginn afsökunar.
YouTube ritskoðaði umræðufund Jay, Martin Kulldorff og DeSantis ríkisstjóra, þar sem þeir færðu rök fyrir skaðseminni af lokunarstefnunni, lokunum skóla og harðlínuaðgerðum sem mánuðum áður hefðu alls ekki verið umdeild. Eftir að GBD var birt var Jay og Martin boðið í Hvíta húsið af Covid ráðgjafa forsetans, Scott Atlas til að ræða hugmyndina um markvissa vernd við Trump forseta. Þrátt fyrir þann fund hélt pólitíska baráttan áfram að þyngjast.
Viðbrögð alríkisfulltrúanna voru skammarleg. Fauci og Covid ráðgjafi Hvíta hússins, Deborah Birx, sniðgengu fundinn. Þá kallaði Francis Collins, forstjóri NIH, á „skilvirka og allsherjar útilokun“ forsendna GBD og kallaði höfundana „jaðarfaraldsfræðinga“. Það var einfaldlega engin lyst á hæstu stigum á heildrænni nálgun eða neinni umræðu. Fjölmiðlaumfjöllun um Jay og aðra gagnrýnendur Covid viðbragðanna hélt áfram að vera eitruð.
Samt hélt viðvera og málflutningur Jay áfram að hvetja milljónir manna og gefa þeim von. Ég byrjaði að skrifa stuðningsyfirlýsingu fyrir markvissri vernd og gegn stöðugri orðræðu um hamfaraspár sem skaðaði alla, sérstaklega börn. Ég hitti Jay haustið 2021 vegna skrifa minna, á ráðstefnu á vegum Brownstone Institute. „Ég held að við séum að skipta máli,“ sagði hann eftir að hafa tekið í höndina á mér. Eins og margir aðrir sem hann hafði hvatt til að taka afstöðu gegn Covid hysteríunni, fann ég fyrir þörfi fyrir að fá að heyra það.
Daginn eftir var Jay að búa sig undir að halda ræðu fyrir framan lítinn hóp í danssalnum og ég sat við hliðina á honum á meðan hann fór yfir athugasemdir sínar við ræðu fyrri ræðumanns. Þótt hann væri klæddur í jakkaföt og bindi, þegar ég leit niður, tók ég eftir því að Jay var með gat á spariskónum sínum. Þetta snerist sannarlega ekki um peninga eða jafnvel stöðu. Hann var einfaldlega að gera það sem hann taldi vera siðferðilega rétt.
Seinna aðstoðaði Jay við að stýra nokkrum Covid-tengdum verkefnum sem ég tók líka þátt í (ég var þar að miklu leyti vegna áhrifa hans). Í fyrsta lagi var Norfolk Group, sem setti saman úrræðaskjal fyrir bandaríska þingið sem bar titilinn „Spurningar fyrir COVID-19 nefnd“ og sú síðari var lýðheilsunefnd Flórída sem var skipuð af ríkisstjóranum DeSantis og undir forystu Joe Ladapo, skurðlæknis Flórída. Báðir hóparnir reyndu að þrýsta á um ábyrg lýðheilsuviðbrögð í Bandaríkjunum og ég tel að þeim hafi tekist vel að varpa ljósi á hversu rangar og skaðlegar lokanirnar og tilskipanirnar voru fyrir almenning sem aðgerðirnar áttu að hjálpa.
Á upphafsfundi Norfolk hópsins talaði Jay oft um augnablikið að hverfa aftur, „að fara yfir Rubicon,“ eins og hann orðaði það, augnablikið þegar hvert og eitt okkar tók ákvörðun byggða á eigin samvisku um að standa á móti múgæsingnum. Hann rifjaði síðar upp í viðtali við Jordan Peterson: „Á einhverjum tímapunkti sumarið 2020 hugsaði ég — til hvers er ferill minn? Ef það er bara til að geta bætt við annarri línu í ferilskrána eða fá einhverja viðurkenningu, þá hef ég sóað lífi mínu – að ég myndi tala, sama hvaða afleiðingar það hefði.”
Heimurinn hefur notið góðs af því að Jay fór yfir Rubicon. Tilnefning hans, eftir mörg ár í óbyggðum og á „jaðri“ lýðheilsu- og heilbrigðisstefnu, endurvekur þá tilfinningu að það sé í raun réttlæti í heiminum. Nú heldur hann áfram að því mikilvæga verkefni að endurbæta stefnu í heilbrigðisrannsóknum. Við ættum að hvetja hann alla leið.
Og ef þér líkar ekki við Jay, þá ert þú vandamálið.
Þýðing: Svala Ásdísardóttir
Birtist upphaflega á vef Brownstone Institute
Íslenska þýðingu á Great Barrington yfirlýsingunni má sjá hér.