
Á Bretlandi var kveðinn upp dómur fyrr í dag er varðar jafnréttislög þar í landi – sem meðal annars kveða á um vernd gegn mismunun á vinnustöðum og þegar fólk leitar sér þjónustu. Í jafnréttislögunum er talað um að ekki megi mismuna fólki á grundvelli ákveðinna mismunabreyta – og í lögunum er m.a. taldar upp mismunabreyturnar „sex“ og „gender reassignment“ (hið síðara nær til trans fólks sérstaklega).
Dómurinn í stuttu máli
Hingað til hefur einnig mismunabreytan „sex“ náð utan um trans fólk sem hefur breytt fæðingarvottorðinu sínu í gegnum önnur lög sem heita Gender Recognition Act, en tilgangur þeirra laga var einmitt að trans fólk geti breytt lagalegu kyni, eða það sem er vitnað til sem „sex“ í breskum lögum.
Dómurinn kveður hinsvegar á um að í samhengi við þessu tilteknu lög skuli „sex“ nú eingöngu vera „líffræðilegt“ eða það sem fólki var úthlutað við fæðingu, sem að virðist stangast á við Gender Recognition Act og viðurkenninguna sem trans fólk hlýtur með því að breyta fæðingarvottorði sínu, og mætti segja að tilgangur þeirra sé nú í rauninni enginn ef þetta stendur.
Óvissa um þýðingu dómsins
Þar sem dómurinn er nýfallinn er það samt sem áður óljóst nákvæmlega hvað niðurstaðan þýðir, enda flókinn dómur sem snertir marga þætti, og er dómurinn sjálfur yfir 88 bls. langur. Það er ekki samræmi í því sem allskonar sérfræðingar, hópar og einstaklingar eru að segja og ríkir því enn mikil óvissa. Það er samt mikilvægt að það sé tekið fram að trans fólk nýtur ennþá verndar í Bretlandi á vinnustöðum og þegar það sækir sér þjónustu á grundvelli kynvitundar (eða „gender reassignment“ í lögunum). Það hefur ekki breyst.
En spurningin nú er hinsvegar hvort að það megi nú lagalega útiloka trans fólk frá þjónustu og kynjuðum rýmum sem eru tiltekin fyrir ákveðin kyn, eða svokölluð „single sex spaces“ í breskum lögum. Sumir greinendur vilja meina að það sé nú búið að gefa leyfi til þess, á meðan aðrar segja að enn séu ákveðnir varnaglar til staðar.
Staðan hingað til
Samkvæmt lögunum hingað til má trans fólk nýta sér kynjuð rými í samræmi við kynvitund, en þó er undantekningarákvæði í jafnréttislögunum sem leyfðu útilokun trans fólks úr kynjuðum rýmum ef ákveðnu ferli var fylgt, t.d. sýnt að hér væri verið að vinna að réttmætu markmiði, útilokunin væri ekki byggð á fordómum, og það hefði ekki verið nein önnur minna útilokandi lausn í boði.
Hvort að þjónustuaðilar sé nú skyldaðir til að fylgja þessu ferli áfram er óljóst, en þess fyrir utan hefur þetta undantekningarákvæði aldrei verið mjög skýrt heldur loðið túlkunaratriði.
Hvergi er skilgreint hvað „lögmætt markið“ er, eða hvað teljast vera fordómar. Og hvernig er hægt að sýna að annara lausna var leitað, ef að t.d. einhver kvartar undan því að þurfa að deila rými með trans manneskju? Hvernig er slíkur ágreiningur leystur með öðru en útilokun trans manneskjunnar ef gefið er leyfi til þess að útiloka trans fólks til að byrja með?
Þetta eru allt spurningar sem hefur lengi verið þrætt um – en nú virðist vera sem að útilokun trans fólks sé í raun leyfileg með þessum dómi á mun auðveldari hátt, og að þjónustuaðilum sé ekki lengur skylt að veita trans fólki þjónustu í samræmi við kynvitund.
Sem þýðir í raun að þjónustuaðilar geta bannað trans körlum að fara í karlaklefann og trans konum að fara í kvennaklefann, og geta bannað trans konum að nýta sér stuðningshópa fyrir konur sem eru þolendur kynferðisofbeldis, og bannað trans fólki geti nýta sér kynjaða heilbrigðisþjónustu (eins og t.d. brjóstaskimun fyrir krabbameini), og neitað að vista það á deildum á spítala í samræmi við kynvitund o.s.frv.
Leiðir dómurinn til alhliða útilokunar trans fólks?
En þetta stoppar ekki þar. Þó svo að dómurinn virðist kveða á um að hægt sé að útiloka trans fólk frá kynjaðri þjónustu í samræmi við kynvitund, þá er líka talað um að það megi jafnvel útiloka t.d. trans karla frá kvennarýmum vegna þess að þeir eru með „karlmannlegt útlit“ og öfugt.
Með slíkum málflutningi mætti því í raun segja að það sé hægt að færa rök fyrir því að trans fólki geti bara yfir höfuð ekki nýtt sér nein kynjuð rými eða þjónustu, og það megi lagalega útiloka þau með öllu. Þetta er augljóst aðför að frelsi og borgaralegum réttindum fólks ef rétt reynist.
Sömuleiðis gæti dómurinn þýtt að trans fólk verði ekki lengur viðurkennt innan tölfræði á vinnustöðum í samræmi við kynvitund, eða t.d. við mælingu á hlutfalli kyns í stjórnum fyrirtækja og samtaka. Þetta verður óneitanlega til þess að tölfræði tekur ekki tillit til trans fólks, sem hefur áhrif á þáttöku og aðgengi þess. Kynjakvótar, mælingar á launamun og öll slík tölfræði mun skekkjast og ekki lengur taka mið af raunverulegu lífi trans fólks.
En þetta veltur auðvitað allt á því að fólk viti að viðkomandi sé trans manneskja. Þú getur ekki útilokað trans manneskju frá þjónustu ef þú veist ekki að hún er trans manneskja, og er það því mjög óljóst nákvæmlega hvernig þetta gengur upp, og hvernig þessu verður fyllilega framfylgt. Augljóslega mun þetta hafa mest áhrif á trans fólk sem er álitið trans fólk eða hefur verið opið með kynvitund sína.
Hvernig verður dómnum framfylgt?
En hvernig þessu á svo að verða framfylgt er önnur saga – en gerir það að verkum að nú óttast trans fólk öryggi sitt í kynjuðum rýmum, þar sem það getur átt í hættu að vera útilokað eða neytt til að nýta rými sem passa ekki þeirra kynvitund. Þetta verður auðvitað til þess að trans fólk er ólíklegra til að nýta sér opinber rými, þjónustu og jafnvel leita sér aðstoðar þegar þau verða fyrir ofbeldi.
Í mínu daglega lífi hér í Bretlandi mun þetta eflaust breyta mjög litlu enda veit fólk ekki að ég er trans í mínu daglega lífi. Þau forréttindi hafa nú orðið enn stærri forréttindi sem veita mér öryggi sem flest annað trans fólk virðist ekki lengur búa við. Sömuleiðis bý ég á Íslandi og get nýtt mér alla þjónustu þar (þó svo ég eigi líka heimili í Bretlandi) – og hef öll skilríki þaðan, og því ómögulegt fyrir bresk stjórnvöld og þjónustuaðila að vita að ég sé trans til að útiloka mig frá þjónustu.
Túlkun dómsins og áhrif
En hvernig nákvæmlega þessi dómur verður túlkaður, og hver áhrifin verða á þjónustuaðila og vinnustaði er samt sem áður ennþá óljóst. Ýmsar mismunandi greiningar, yfirlýsingar og nálganir eru enn á lofti, enda var dómurinn bara kveðinn upp í dag. En miðað við þá vegferð sem Bretland hefur verið á undanfarin áratug, og sögu Bretlands þegar kemur að meðferð þeirra á hinsegin fólki, þá er útlitið ekki gott.
Haturshópar og einstaklingar sem hafa beitt sér gegn réttindum trans fólks hafa fagnað þessu, og er augljóst að þau munu reyna að nýta sér þennan dóm til hins ýtrasta. Dómurinn verður án vafa notaður til að reyna að grafa alvarlega undan réttindum trans fólks og aðgengi þess að þjónustu og vernd á vinnustað. Hann mun gefa haturshópum byr undir báða vængi, og auka fordóma og mismunun í bresku samfélagi. Hér hefur í raun verið gefið enn eitt leyfið til þess að grafa undan trúverðugleika og viðurkenningu trans fólks.
Bretland heldur því áfram sinni skelfilegu vegferð og meðferð á hinsegin fólki, líkt og Bandaríkin. Það er öllum augljóst sem virða mannréttindi, frelsi og mannlega reisn að þessi dómur mun hafa skelfilegar afleiðingar fyrir trans fólk í Bretlandi, og ýta undir frekari fordóma, mismunun, jaðarsetningu og ofbeldi í okkar garð. Með þessum dómi virðist því vera að breskir dómstólar séu að segja að trans fólk eigi ekki að standa jafnfætis öðrum í bresku samfélagi. Það er óhugnaleg þróun sem setur aðra minnihlutahópa og réttindi í hættu, og setur fordæmi fyrir frekari skerðingu á mannréttindum fólks þar í landi.
En það er að er alveg augljóst að trans fólk er ennþá það kyn sem það segist vera þrátt fyrir þennan dóm, og yfirlýsingar um annað fáranlegar, fordómafullar og í engu samræmi við raunveruleikann.
Trans fólk hættir ekki að vera til
Trans konur verða áfram konur, trans karlar verða áfram karlar og kvár eru ennþá kvár. Það breytist ekki þrátt fyrir að einhver dómari hafi kveðið upp dóm í samhengi við lagafræðilega skilgreiningu í jafnréttislögum.
Enginn lagabókstafur, pólítísk öfl, mismunun eða ofbeldi mun breyta því að trans fólk er svo sannarlega til, og mun halda áfram að vera það. Við erum ekki að fara neitt. Við erum hluti af sama samfélagi og annað fólk, og eigum rétt á sömu virðingu og þau.
Þetta mál snýst því einfaldlega um hvernig Bretland vill koma fram við trans fólk og hvaða réttinda það eigi að njóta – og virðist vera sem að Bretlandi hafi aftur valið mismunun og útilokun, líkt og stjórnvöld þar í landi hafa gert svo oft áður.
Það er því mikilvægt að við hér á Íslandi gerum okkur grein fyrir þessari þróun, sofnum ekki á verðinum og tökum strax á málum sem koma upp hérlendis sem eru sambærileg þeirri þróun sem hefur átt sér stað erlendis. Við höfum tækifæri til að sýna að við samþykkjum ekki að troðið sé á mannréttindum viðkvæmra hópa, og að við munum standa með frelsi, mannréttindum og mannlegri virðingu.
Það er grundvallaratriði í samfélagi sem gengur út á að við stöndum öll jafnfætis. Því megum við aldrei glata.
Greinin er byggð á Facebook-færslu höfundar. Mynd af höfundi: Móa Hjartardóttir