Þegar ég hóf störf sem blaðamaður fyrir rúmum 29 árum hafði ég ekki fullmótaðar hugmyndir um íslenska fjölmiðla, starf þeirra og hlutverk. Ég var enda bara 21 árs, óreyndur og vanþroska stráklingur sem gerði ráð fyrir því að eina markmiðið væri að segja satt og rétt frá, á eins hlutlægan og hlutlausan hátt og mögulegt væri.
Og sannarlega vann ég með frábæru fólki, sem sinnti starfi sínu af bestu samvisku og mikilli fagmennsku. Ég rétt náði í skottið á þeim tíma sem fjölmiðlar „sögðu fréttirnar“, punktur og basta. Þeir voru stórveldi sem réðu miklu um það sem almenningur fékk að vita, settu mál á dagskrá og framsetningin hafði mikið að segja um það á hvaða forsendum málin yrðu rædd í samfélaginu.
Þetta barnslega sakleysi hefur síðan kvarnast úr andliti unga mannsins eins og æskulegt yfirbragð hans. Fjölmiðlar eru ekki rás sannleikans, heldur hagsmuna og hugmyndafræði. Oftast eru þeir málpípa ráðandi afla í samfélaginu, sía sem spýr út hinu rétta „narratífi“, öfl sem eru blóðug upp fyrir axlir í hápólitískum hjaðningarvígum, þar sem sannleikurinn er oft hliðarmarkmið og tilgangurinn helgar gjarnan meðalið.
Til að auka enn á sannleikshallann eru íslenskir fjölmiðlar nú háðir gríðarlega háum styrkjum frá ríkisvaldinu. Hver er trúverðugleiki fjölmiðla sem fá árlega sex milljarða króna frá þeim aðila sem þeir ættu helst að veita gagnrýnið aðhald?
Hið jákvæða við þetta allt saman er hins vegar að grímulaus erindreksturinn hefur fært okkur heim sanninn um að þegar allt kemur til alls berum við sjálf ábyrgð á því að leita sannleikans. Svo vill til að fram á sjónarsviðið er nú komin ný tækni, svokallað internet, sem gerir okkur kleift að fylgjast milliliðalaust með viðburðum í heiminum og brosa góðlátlega að þeirri bjöguðu heimsmynd sem fjölmiðlar reyna halda að okkur á hverjum degi.
Það er nú eitthvað.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu