Hin augljósa hnignun menntunar í samfélagi okkar í dag á sér margar orsakir. En þrjár þeirra koma strax upp í hugann.
Sú fyrsta er að kennarar og skipuleggjendur skólastarfs virðast alls ófærir um að greina af nákvæmni áhrif nýrrar tækni á menningu almennt og á hugsunarferli nemenda sérstaklega.
Önnur orsökin er tilhneiging kennara og skólastjórnenda til að vísa út á jaðarinn í daglegu kennslustarfi, oft án mikillar íhugunar, því hlutverki kennarans að vera nemendum kærleiksrík fyrirmynd, sem lengst af var álitið lykilatriði í kennslu.
Þriðja orsökin er hvernig margir kennarar, sem upplifa í auknum mæli firringu og ótta gagnvart þeirri gráðugu sérhyggju sem einkennir neyslusamfélagið, bregðast við henni með því að draga stórlega úr áherslu á persónulega ábyrgð og verðleika í samskiptum við nemendur.
Í bók sinni, Amusing Ourselves to Death (1984), minnir hinn heimsþekkti menntaheimspekingur Neil Postman okkur ítrekað á, og fylgir þar í fótspor læriföður síns Marshall McLuhan, að sem fylgjendur nútíma trúarbragða um óhjákvæmilega línulega framþróun beinum við athyglinni nær eingöngu að kostum nýrrar samskiptatækni, en horfum oft fram hjá því að hver nýjung ber með sér nýja þekkingarfræði; þ.e. nýja leið til að koma reiðu á tilveru okkar í tíma og rúmi.
Postman telur hvorki ráðlegt né mögulegt að reyna að hindra eða útiloka þróun nýrrar samskiptatækni. En hann bendir á að það sé á ábyrgð allra sem hafa áhuga á framþróun og auðgun menningarinnar að ræða opinskátt og heiðarlega um hvaða hugrænu og mannlegu eiginleikum við töpum, og hvaða eiginleika við öðlumst, þegar ný samskiptatækni ryður sér til rúms.
Hann ítrekar að það er fyrst þegar við höfum komist að því hvort og hvernig ný tækni styður við þá færni og þekkingarviðmið sem við, fullorðið fólk, höfum ákveðið að séu nauðsynleg til að lifa hinu góðu lífi, sem við ættum við að gefa henni rými í kennslustofunni.
En til þess þyrftum við auðvitað að gera nokkuð sem við höfum látið hjá líða hingað til, sem borgarar, kennarar og stjórnendur; að taka alvarlega umræðu um hvað þetta góða líf, sem grísku heimspekingarnir (og allir alvöru menntamenn í sögunni til skamms tíma) töluðu um er í raun og veru. Og hvaða færni, eða kannski enn fremur, hvaða hugrænu og sálfræðilegu forsendur eru líklegastar til að hjálpa nemendum að ná að lifa því.
Og þessi ruglingur leiðir okkur aftur að síðara vandamálinu sem nefnt var í upphafi; þeim djúpstæðu áhrifum sem ný samskiptatækni hefur á skynjun okkar á veruleikanum.
Þegar fólk á borð við Postman veltir fyrir sér þessu fyrirbæri beinir það oftast sjónum að því hvernig tækninýjungar hafa áhrif á skynjun okkar í rúmi og tíma. Það sem þau nefna sjaldnar, hins vegar, er hvernig þær geta einnig breytt skynjun okkar á merkingu þess að vera manneskja.
Ég vísa hér til vaxandi tilhneigingar til að líta á nemendur sem vélar, og þar með á námsferlið eins og starfsemi tölvu þar sem úttak (þekking) er séð sem einfaldur afrakstur “innlagnar” (upplýsinga) sem forritarinn (kennarinn) veitir.
En ungt fólk er miklu meira en vélar sem vinna úr upplýsingum. Ungt fólk leitar æðri veruleika, upplifana og uppgötvana sem hjálpa því að rísa yfir hversdagsleikann. Þetta er ástæðan fyrir því að ungmenni taka gjarna svo mikla áhættu í lífi sínu. Og þess vegna leita þau einnig, oft án þess að geta viðurkennt það, að fullorðnu fólki sem býr yfir því sem þau sjálf skortir enn; skilning á eigin styrk, einstaklingseinkennum, hæfileikum og seiglu.
Þau leita stöðugt að fyrirmyndum, dæmum um hvað það þýðir að vera vitsmunalega mótaður einstaklingur með getu til að takast á við lífið og við flóknar hugmyndir af ástríðu og með persónulegum hætti. Og ef við sem kennarar, vegna skorts á öryggi eða af ótta við að vera talin „kúgandi,“ gefum ekki til kynna að við höfum þetta ákvörðunar- og leiðbeiningarvald – hér í þeim skilningi að vera höfundur eigin lífs – þá leita þau þess annars staðar
Um leið leita þau í sífellu kærleika, sem ætti ekki, eins og svo oft gerist nú á tímum að rugla saman við uppgjöf gagnvart þroskaleysi þeirra. Nei, þau leita í örvæntingu eftir platónskum kærleika, sem mótast af stöðugri, íhugulli og samúðarfullri athygli kennara sem reynir að skilja sérhvern einstakling og sem reynir að miðla því til þeirra, bæði í smáu og stóru, að þau séu alltaf miklu klárari og hæfari en þau telja sig vera.
En til að geta komið fram við ungt fólk með þessum hætti á samræmdan og stöðugan hátt þarf kennarinn sjálfur að hafa ræktað eigin lífsvilja, hann þarf að hafa til að bera rótgróna sannfæringu um að lærdómsferlið sem slíkt sé göfugt og til þess fallið að rækta og efla mennskuna, en sé ekki aðeins tæki í hinni eilífu baráttu um lífsviðurværi.
Og það er hér sem við komum að síðustu stóru hindruninni í vegi skólakerfis sem eflir með nemendum vitsmunalega getu og kemur þeim til þroska sem manneskjum; vanmættinum sem ríkjandi efnahagskerfi ýtir undir meðal margra kennara.
Þótt efnahagskerfið okkar lofi stöðugt gnægð og hamingju, grundvallast það að mörgu leyti á því að rækta óstöðugleika með stórum hlutum þjóðarinnar. Og það sem verra er, eins og Debord varaði okkur við fyrir meira en fimmtíu árum, þá hneigist þetta neysludrifna yfirborðslega samfélag til þess að tæta í sig hefðir, gildi og siðferðisforsendur—svo sem hugmyndina um að tiltekin tengsl séu eðlileg á milli erfiðleika, hættu eða félagslegs gildis starfs og fjárhagslegrar umbunar—sem veittu okkur tilfinningu fyrir félagslegri reglu um langa hríð.
Frammi fyrir þessu óreiðukennda landslagi gefast margir kennarar upp fyrir vonleysi og, af misskilinni samúð gagnvart nemendunum sem glíma við óreiðuna, freistast þeir til að „frelsa“ þá undan hefðbundnum siðareglum og þörfinni fyrir að leita árangurs á grundvelli verðleika.
En við verðum að muna að í lífi ungmenna er aðeins eitt verra en að verða fyrir óréttlátum árásum fullorðinna í krafti valds. Það er að gruna að fullorðna fólkið í lífi þeirra sé aðeins stór börn; það er, að það sé ófært um að vera þeim fyrirmyndir í því hvernig berjast skal fyrir persónulegri reisn í heimi sem, þrátt fyrir allt tal í fjölmiðlum um þátttöku og fjölbreytni, einkennist æ meir af miklu óþoli gagnvart einstaklingum sem rísa gegn ríkjandi viðmiðum og trúarsetningum.
Það er frábært að eiga vini sem hlusta af hluttekningu á umkvörtunarefni okkar. En almennt getum við aðeins þróað þá „innri seiglu“ (e. intimate resistance) sem styrkir okkur í endalausum orrustum lífsins með því að fylgjast með lífsháttum eldri einstaklinga sem sjálfir hafa átt í samtali og átökum við bæði „réttlát“ og „óréttlát“ yfirvöld í lífi sínu og hafa getað þróað sína eigin persónulegu lífsafstöðu og lífshætti.
Þegar við, sem samfélagið hefur falið hið stofnanalega vald, smættum okkur niður í að vera ekki annað en samúðarfullir vinir nemenda okkar, hættum við á að afmá algerlega þetta nauðsynlega þroskaferli.
Það er bæði ótrúlegt og skammarlegt að það hafi tekið okkur meira en fimmtán ár að hefja alvöru umræðu um hvort leyfa eigi farsíma, einhverja mest truflandi tækni sem um getur í mannkynssögunni, í skólum. Kannski geta þeir flýtt fyrir námi, kannski ekki. En það er glæpsamlegt að við skulum hafa hleypt þeim inn í skólana án þess að eiga fyrst alvarlega umræðu um mögulegar neikvæðar afleiðingar þess. Hið sama má segja um núverandi keppni um að innleiða gervigreind í kennsluna.
Í aldanna rás hafa heimspekingar talað um hvernig kennsla og nám einkennast af viðleitni til að efla andann. En við höfum gleymt þessu, drifin áfram af menningu sem hefur skipt út dýrkun hins andlega fyrir dýrkun hins vélræna, sem hefur valdið þeirri tilhneigingu að líta á nemendur sem vélar sem vinna úr „staðreyndum“ í stað þess sem þeir eru í eðli sínu: kraftaverk af holdi og blóði sem eru færir um ótrúlega róttæk og skapandi hugræn afrek.
Neysluhyggjan er, svo við vitnum til hins fræga friðaróðs Leóns Gieco, „skrímsli sem traðkar niður“ og tortímir flestu sem á vegi þess verður. Og það þarf vart að taka fram að ungmenni sem standa frammi fyrir þessari grimmu skepnu eiga alla hluttekningu skilið.
En kannski er samt enn mikilvægara að þau fái þá þjálfun sem nauðsynleg er til að geta háð vitsmunalega baráttu við þau öfl sem reyna að taka völdin í lífi þeirra. Þess vegna, frekar en að reyna í útópískri tálvon að vernda þau frá sársauka og árekstrum við þau sem eldri eru, ættum við að leitast við að veita þeim næg tækifæri til að takast á við okkur í skólunum við aðstæður sem vonandi eru mildaðar af grundvallarvirðingu fyrir mennsku þeirra, sem og okkar sjálfra.
Við getum vissulega náð fram smávægilegum umbótum innan menntakerfisins á grundvelli frjálslyndrar umbótastefnu á næstu árum. En mér virðist að nú, á tímum sem markast af hröðum breytingum á skynjun okkar á mörgum grundvallarþáttum tilverunnar nægi slíkar hægfara umbætur alls ekki. Nei, til að mæta þeim áskorunum sem hinar gríðarhröðu breytingar eru að valda tel ég, svo mótsagnakennt sem það kann að virðast, að við verðum snúa aftur til hinna hefðbundnu andlegu og tilfinningalegu róta menntunar í leit okkar að svörum.
Greinin birtist fyrst á ensku á vef Brownstone Institute. Þorsteinn Siglaugsson þýddi.