Hvenær má ljúga?

Munchausen barón þeysist um loftin blá á fallbyssukúlu.

Málfrelsi þýðir ekki frelsi til að segja bara ákveðna hluti. Það þýðir ekki að frelsið snúist um að segja eingöngu frá viðurkenndum staðreyndum, hófsömum skoðunum og hlutlausum viðburðum, eins og veðrinu. Nei, málfrelsið þýðir að menn geti sagt það sem þeir vilja. Á þessu eru vitaskuld ákveðnar takmarkanir, og sem dæmi má nefna að hrópa „eldur! eldur!“ í þéttsetnu leikhúsi án tilefnis og skapa örvæntingu meðal gesta og skaða á rekstri viðkomandi leikhúseiganda. Að segja barni að stela í búð er líka tjáning af öðru tagi en málfrelsi fjallar um. En að örfáum undantekningum frátöldum þýðir málfrelsið einfaldlega það – frelsi til að tjá sig.

Hvenær má ljúga?

En er þá í lagi að ljúga? Já. Það má ljúga. Við beitum gjarnan lygum í ýmsum tilgangi. Væg lygi er að ýkja aðeins starfsferilskrána. Gróf lygi er að ásaka nágranna sinn ranglega um að leita á börnin í nágrenninu. Yfirleitt afhjúpa slíkar lygar sig og lygarinn endar á að koma verst út úr því, missa mannorðið og verða eins og drengurinn á fjallinu sem hrópaði að gamni sínu „úlfur! úlfur!“ þar til hann var sjálfur étinn af einum slíkum, enda kom honum enginn til bjargar eftir slóða lyga fram að þeim óheppilega viðburði. 

Allskyns aðrar lygar (eða ósannindi) umleika okkur án þess að því sé veitt mikil athygli. Við meðtökum þær, prófum stundum sannleiksgildi þeirra eða heyrum í öðrum sem hafa gert það, hunsum þær eða föllum einfaldlega fyrir þeim án þess að verða endilega verr stödd fyrir vikið, enda eru sumar lygar saklausar (og má hér nefna kosningaloforð sem dæmi). Ekkert yfirvald á að hafa afskipti af þessu. 

En er þá í lagi að ljúga til að markaðssetja sig? Já, auðvitað. Það leiðir af fyrrnefndri umræðu. 

Er í lagi að segjast hafa verið bankastarfsmaður sem lá undir gagnrýni fyrir klæðnað sinn og sætti jafnvel áreiti fyrir? Nýta síðan þá upplognu upplifun og athyglina sem hún fékk til að stofna hlaðvarpsþátt sem fjallar um og afhjúpar ofbeldi gegn konum? Já. Það er í lagi.

Má afhjúpa lygi?

Má afhjúpa þá lygi án þess að vilja fórnarlömbum ofbeldis neitt slæm? Já, það má líka. Það má afhjúpa lygar. Margir telja það almennt vera þjóðþrifaverk.

Er þá verið að hampa ofbeldismönnum? Nei, auðvitað ekki.

Getur lygarinn gert hreint fyrir sínum dyrum, játað lygarnar, og haldið áfram að styðja við fórnarlömb ofbeldis? Vitaskuld. Sé áhuginn á að veita slíkan stuðning áfram til staðar þá er það bara spurning um að biðjast afsökunar og gera það af auðmýkt en ekki með útúrsnúningum. Málfrelsi má líka nýta til þess.

Til dæmis mætti segja: „Fyrirgefðu, ég laug, en vinsamlegast ekki láta minn lygavef bitna á þeim og orðspori þeirra sem hafa nýtt sér þjónustu mína, jafnvel þótt hún hafi verið auglýst á fölskum forsendum!“

Einu sinni var Arnold Schwarzenegger, leikarinn þekkti sem þá var í framboði til ríkisstjóra Kaliforníu í Bandaríkjunum, spurður út í viðtöl sín á yngri árum þar sem hann sagðist hafa nota eiturlyf og umgengist fjölda kvenmanna á hinu svokallaða Playboy-setri. Hann svaraði því til að hann hefði ekki lifað lífi sínu til að gerast stjórnmálamaður. Hann varð ríkisstjóri. Stundum er sannleikurinn sagna bestur, en til vara að játa mistök og taka næsta skref. 

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *