Mánudaginn 15. maí hélt Málfrelsi – samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi fund á Kringlukránni um fræðslustarf Samtakanna 78 í skólum. Þar hélt Þorbjörg Þorvaldsdóttir verkefnastýra samtakanna erindi og svaraði spurningum úr sal. Fundinum stýrði Baldur Benjamín Sveinsson, stjórnarmaður í Málfrelsi.
Þorbjörg hóf mál sitt á að ræða um mikilvægi tjáningarfrelsisins og benti meðal annars á hvernig barátta hinsegin fólks víða um heim hefur ekki síst snúist um málfrelsi, og hvernig að því er vegið sífellt víðar. Hún gerði síðan grein fyrir fræðslustarfi samtakanna og áherslum. Fundurinn var vel sóttur og miklar og heitar umræður urðu um málefnið, enda skoðanir mjög skiptar. Eins og við mátti búast voru málefni transfólks og fræðsla um þau ofarlega á baugi. Ljóst er að þessi umræða mun halda áfram enda varðar hún marga, ekki aðeins transfólk og aðstandendur þess heldur einnig kennara, foreldra og auðvitað börnin sjálf. Málið er margslungið og ýmsar spurningar sem standa eftir, þar á meðal spurningar um læknisfræðilegu hliðina og sálfræðilegu hliðina á þessum málum, en þar þarf að kalla til sérfræðinga á þeim sviðum.
Þessi fundur sýndi svo ekki verður um villst mikilvægi þess að eiga samræður augliti til auglitis um flókin og viðkvæm mál sem fyrir mörgum eru mjög persónulegs eðlis. Þeir sem fylgst hafa með umræðu um þessi mál á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fjölmiðla hafa séð hvernig slík skoðanaskipti enda gjarna í persónulegum árásum og ásökunum. Slíks varð ekki vart á fundi félagsins nú. Skoðanir voru vissulega mjög skiptar, en samskiptin einkenndust samt af þeirri gagnkvæmu virðingu sem er svo nauðsynleg til að upplýst umræða geti átt sér stað. Og upplýst umræða, það að hittast á torginu og ræða saman um málefni samfélagsins, takast á, jafnvel af krafti, en ávallt í vinsemd; hún er grundvöllur heilbrigðs og samheldins samfélags, og það er hann sem Málfrelsi hefur einsett sér að rækta og styrkja.
Félagið þakkar Þorbjörgu, Baldri og öllum fundarmönnum kærlega fyrir gagnlega umræðu og skoðanaskipti og vonar að þessi fundur hafi orðið til þess að varpa skýrara ljósi á málefnið.