Fundur um fangelsaðan mann og hugmyndir hans

Eins gott að ritskoðunarteymi Þýskalands fékk ekki veður af fundi þessa fólks í grennd við Bonn í Þýskalandi um síðustu helgi. Til fundarins var efnt til að ræða hugmyndir um lýðræði og frið, vernd umhverfisins, jafnrétti kynjanna og ýmislegt þessu tengt og með hvaða hætti mætti best örva umræðu um þessi efni. 
En þá kemur að ritskoðunarteyminu því í þessu samhengi voru ræddar sérstaklega hugmyndir ættaðar frá Abdullah Öcalan, hinum fangelsaða leiðtoga Kúrda, en honum hefur verið haldið í einangrun á Imrali eyju undan strönd Istanbúl í Tyrklandi í nær aldarfjórðung.
Það má helst ekki nefna hann á nafn í Þýskalandi og sumum öðrum NATÓ ríkjum því hann tók á sínum tíma þátt í vörnum Kúrda gegn ofbeldi tyrkneskra yfirvalda. Frið hefur hann reyndar alltaf viljað en að því tilskyldu að látið verði af kúgum og ofbeldi í garð Kúrda. Hann var kallaður hryðjuverkamaður,, en þeir sem stjórnuðu ofbeldinu sitja við háborðið hjá NATÓ. 

Friðarboðskapur Öclans þykir mér sannfærandi og hef ég fylgst með því hvernig framlag hans hefur hin síðari ár allt verið í þá átt að ná sáttum og friði. Vandinn er hins vegar sá að tyrknesk stjórnvöld – með aðstoð bandalagsþjóða þeirra í NATÓ – hafa gert allt til að torvelda að orð hans fengju vængi.

Það gerðist hins vegar á árunum 2013 til 2015, en þá voru gluggar einangrunarfangelsisins á Imrali eyju opnaðir og Öcalan leyft að leiða friðarviðræður af hálfu Kúrda til að ljúka áratuga ófriði í þeim hluta Tyrklands þar sem Kúrdar eru í meirihluta.
Síðan var fengelsisdyrunum skellt í lás að nýju því Erdogan Tyrklandsforseti óttaðist vaxandi fylgi lýðræðishreyfingar Kúrda, HDP flokksins. Þá var byrjað að skrímslavæða á nýjan leik og óskað eftir liðsinni NATÓ. Það liðsinni var veitt, úrskurður á æðsta dómstigi í Belgiu um að rangt væri að skilgreina baráttusveitir Kúrda sem hryðjuverkamenn hunsaður, og nú er það bannað með lögum í Þýskandi að sýna myndir með Öcalan og fána Kúrda. 

Við létum þetta ekki á okkur fá og ræddum óhikað um lýðræði, jafnrétti kynjanna og vernd umhverfisins. Þessi fundur var gefandi og örvandi og lærði ég margt. Ekkert lærði ég þó sem var hvetjandi til ofbeldis. Þvert á móti var fyrst og fremst rætt um leiðir til að tryggja frið á milli manna og frið við náttúru jarðarinnar. 
Svo var rætt um tjáningarfrelsið. Sennilega þykir stjórnvöldum sér stafa mest ógn af því.

Á myndinni eru þau sem tóku þátt í fundinum og á skjámyndum okkur að baki eru nokkrir þeirra sem tóku þátt með fjarfundabúnaði. Þar má sjá Denis O´Hearn, bandarískan háskólaprófessor, John Holloway, prófessor við háskóla í Mexíkó og skoska rithöfundinn James Kelman.

Greinin birtist fyrst á ogmundur.is 29. nóvember 2023

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *