Endalok frjálsrar umfjöllunar um glæpsamlegt atferli yfirvalda?

Í siðmenntuðum réttarríkjum er ólöglegt að frelsissvipta einstaklinga til lengri tíma án dóms. Þrátt fyrir það hefur ástralski blaðamaðurinn Julian Assange setið ódæmdur í bresku fangelsi síðastliðin þrjú ár vegna yfirvofandi framsals til Bandaríkjanna og fyrirhugaðra réttarhalda. Bandarísk yfirvöld hafa nú sótt rétt sinn við hæstarétt Bretlands um að fá Assange framseldan og fluttan. 

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir í nýlegu viðtali að bandarísk stjórnvöld beiti nú miklum þrýstingi og að nái þau sínu fram gæti svo farið að Assange verði framseldur á næstu vikum. Kristinn er staddur í Suður-Ameríku til að vekja athygli á þeim hagsmunum tjáningarfrelsis sem eru í húfi verði Julian Assange dæmdur. Markmiðið sé að fá stjórnmálaleiðtoga í Suður Ameríku og Mexíkó til að hvetja Biden-stjórnina til að endurskoða málið út frá eigin hugsjónum um hefðbundið fjölmiðlafrelsi og að fella niður kærur á grundvelli þeirra. Kristinn átti persónulegt samtal við nýjan forseta Brasilíu, Lula da Silva, og segir hann átta sig vel á óréttlætinu í máli Julian Assange og þeirri alvarlegu aðför að tjáningarfrelsinu sem málið endurspeglar. Þá hefur forseti Bólivíu, Luis Arce, gefið út yfirlýsingu til stuðnings Assange eftir fund með fulltrúum Wikileaks nýlega. 

Julian Assange er grunaður um njósnir vegna birtingar á upplýsingum um stríðsglæpi Bandaríkjamanna, morð bandaríska hersins á óbreyttum borgurum í Írak og Afganistan árið 2010 og síðar birtingar á umdeildum tölvupóstsamskiptum Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda, sem lekið var af Wikileaks árið 2016.

Umrætt myndband frá Írak vakti heimsathygli og mikla andúð en í því sést hvernig bandarískir hermenn léku sér að því að miða á óafvitandi gangandi vegfarendur og skjóta þá af miklum móð líkt og um tölvuleik væri að ræða.

En í hverju felst meintur glæpur Assange? Ekki skaut hann saklaust fólk til bana sér til skemmtunar í Írak. Ekki kvikmyndaði hann umrætt atvik. Ekki lak hann því frá bandaríska hernum. Hann vann einfaldlega vinnu sína sem blaðamaður og ritstjóri þegar myndbandsupptakan af ódæðinu var birt á miðlinum Wikileaks, sem hann stofnaði og ritstýrði frá árinu 2006. 

Bandaríska varnarmálaráðuneytið lítur svo á að með birtingunum á Wikileaks hafi Assange ógnað öryggi Bandaríkjanna. Þá hafa sögusagnir spunnist um að rússneska leyniþjónustan eigi að hafa komið að uppljóstruninni á tölvupóstasamskiptum Hillary Clinton, eitthvað sem Julian Assange hefur þvertekið fyrir frá upphafi. Þar að auki hafi hann sjálfur ekki komið beint að máli Hillary Clinton. 

Kristinn Hrafnsson segir að málið sé í raun ósköp einfalt. Það sé verið að glæpavæða blaðamennsku og að mikilvægt sé að blaðamannastéttin átti sig á því. “Ef það er hægt að glæpavæða hvöt blaðamanna til að afla og nýta upplýsingar þá er hægt að glæpavæða hvern einasta blaðamann“, segir Kristinn Hrafnsson við blaðamanninn Glenn Greenwald.

Kristinn segist vera einn af aðeins tveimur vinum sem megi heimsækja Julian í fangelsinu og telur að verið sé að brjóta hann niður andlega. Frelsissviptingin síðastliðin þrjú ár hafi tekið sinn toll. Kristinn kynntist Julian þegar gögn sem tengdust íslenska bankahruninu voru birt á Wikileaks. Sagði þá Kristinn Hrafnsson skilið við 20 ára starfsferil sinn sem hefðbundinn blaðamaður í meginstraumsfjölmiðlum og gerðist sjálfstætt starfandi rannsóknarblaðamaður og talsmaður Wikileaks. Lagði hann töluvert á sig við að sannreyna meinta stríðsglæpi bandaríska hersins í Írak og Afganistan og segist til að mynda hafa ferðast til Bagdad og hitt þar tvö börn sem misst höfðu föður sinn í ódæðinu. Þetta er það sem blaðamennska snýst um og sannir blaðamenn reyna alltaf að nálgast upplýsingar út frá nærtækustu heimildum sem til eru. 

Blaðamennska snýst um að komast að kjarna málsins hverju sinni og að uppljóstra um hverskyns mannréttindabrot og misrétti í þágu almennings. Frelsisbarátta Julian Assange snýst því ekki eingöngu um hann sjálfan heldur stendur eða fellur frjáls fréttaumfjöllun og blaðamennska sem slík með máli hans, þar sem það hefur fordæmisgildi. Tjáningarfrelsi er hornsteinn blaðamennskunnar sem á að gera blaðamönnum það kleift að greina réttilega frá gangi mála. Verði Assange dæmdur er komið upp nýtt fordæmi sem ógnar möguleikum blaðamanna til að geta ljóstrað upp um vafasöm mál í þágu mannréttinda og réttlætis. 


Heimildir:

Viðtal Glenn Greenwald við Kristinn Hrafnsson

Málsumsókn til Mannréttindardómstól Evrópu

Forseti Bólivíu tekur afstöðu með Julian Assange

Myndband af skotárásum á almenna borgara í Írak.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *