Fyrir nokkru handtóku bandarísk yfirvöld Omali Yeshitela, Penny Joanne Hess, Jesse Nevel og Augustus . Romain Jr., öll meðlimir í African People‘s Socialist Party (APSP). Samtímis voru Aleksandr Viktorovich Ionov, Aleksey Borisovich Sukhodolov og Yegor Sergeyevich Popov handtekin, en þeir eru rússneskir ríkisborgarar.
Ásakanirnar á hendur Yeshitela, Hess, Nevel og Romain Jr. eru þær að þau hafi á „ólögmætan hátt“ haldið fram „rússavænum áróðri og rang-upplýsingum“ og með því „sáð fræjum ósættis í Missouri, Georgíu og Flórída“ (sjá hér). Að sögn dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, notuðu þau fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar – um tjáningarfrelsið – til að „tvístra Bandaríkjamönnum og skipta sér af kosningum í Bandaríkjunum“. Þau höfðu, með öðrum orðum tjáð skoðanir og greint frá upplýsingum sem féllu ekki að línunni. Þau frömdu hugsunarglæp og eiga nú yfir höfði sér tíu ára fangelsisdóm fyrir. Stjórnarskráin verður að vera í öðru sæti.
Þau gætu lent í sístækkandi hópi einstaklinga sem stungið hefur verið í steininn í svokölluðum vestrænum lýðræðisríkjum fyrir að tjá sig vitlaust, eða dreifa óþægilegum upplýsingum. Meðal þeirra sem þegar sitja inni fyrir slíkar sakir eru Daniel Everett Hale, fyrrum starfsmanns National Security Agency (NSA) vestra, sem dæmdur var í fangelsi árið 2021 fyrir að leka upplýsingum sem sýndu að nærri því 90 prósentur þeirra sem drepnir hefðu verið í drónaárásum Bandaríkjahers innan svokallaðra „óvinveittra ríkja“ á borð við Sómalíu, Sýrlands, Líbýu, Afganistan o.s.frv. hefðu verið saklausir óbreyttir borgarar, og að bandarísk yfirvöld héldu lista yfir réttdræpa einstaklinga um heim allan. Þessir einstaklingar væru svo teknir af lífi án dóms og laga eftir geðþóttaákvörðunum fólks í Washington DC. Hale rotnar nú inni í USP Marion fangelsinu í Illinois. Þeir sem létu taka saklausa borgara um allan heim af lífi án dóms og laga hafa það notalegt. Blaðamenn þegja þunnu hljóði.
Uppljóstrarar fyrr og nú
Sú var tíðin að fjölmiðlar vernduðu þá sem settu frama sinn og jafnvel líf í hættu með því að leka upplýsingum sem sýndu fram á glæpsamlega hegðun hinna valdamiklu. Frásagnir af My Lai fjöldamorðunum, Watergate hneykslinu og jafnvel Íran-Kontramálinu voru á forsíðunum og uppljóstrunum var hampað sem hetjum. Þau höfðu fært heimsbyggðinni sannleika og komið upp um glæpi.
En nú er öldin önnur. Uppljóstrarar og þeir sem gagnrýna stríðsæsingartal eru nú annað hvort hunsaðir eða svertir í fjölmiðlum. Sögurnar sjálfar lenda í skugga þagnarinnar. Assange rotnar í fangelsi og mætir skerandi þögn blaðamanna Vesturlanda, Snowden á ekki endurkvæmt til Bandaríkjanna, en nýtur verndar í því ríki sem allra mesti múgsefjunarhatursáróðurinn dynur yfir, Rússlandi. Fólk sem áður taldist til virtustu blaða- og félagsvísindamanna heims, t.d. John Pilger, Naomi Klein, Johan Galtung og jafnvel Seymour Hersh eru í skammarkróknum. Ef ekki tekst að þegja þessa alvöru blaðamenn í hel er ráðist á persónu þeirra, þau fangelsuð, eða fá jafnvel enn verri meðferð, eins og síðar verður vikið að.
Innihald þeirra upplýsinga sem slíkir blaðamenn og uppljóstrarar birta er nú einfaldlega hunsað. Því er tekið sem sjálfsögðum hlut að slíkt tal séu einskonar föðurlandssvik, og að kynna sér þessar upplýsingar geri menn samseka. Lýsandi dæmi um þetta er umfjöllunin um nýlegt lekamál frá Pentagon. Fjölmiðlar kepptust við að birta upplýsingar um þann sem lak upplýsingunum um starfsemi Pentagon í Úkraínu, Jack Teixeira, en sýndu þá fádæma hlýðni að hunsa nærri alfarið það sem fram kom í þeim skjölum sem lekið var (með virðingarverðum undantekningum). Þeir sem hafa fyrir því að grafa upp þær upplýsingar sem þar koma fram munu finna fjölmarga alþjóðlega glæpi, gögn sem sýna fram á lygar okkar manna og hegðun sem getur sett líf allra jarðarbúa í hættu. New York Times aðstoðaði FBI að finna Teixeira. Það segir allt um hvert Vesturlönd eru komin þegar kemur að blaðamennsku.
Dauðalistar látnir afskiptalausir
Vestræn yfirvöld hafa ekki haft afskipti af hinum úkraínska dauðalista sem haldið hefur verið uppi á vefsíðunni Myrotvorets síðan árið 2014. Þessi einstaklega ógeðfellda síða birtir persónulegar upplýsingar, þar á meðal heimilisfang og jafnvel fjölskyldutengsl, fólks sem þykir ekki sýna nógu hollustu í garð núverandi stjórnar í Úkraínu. Fjöldi þeirra hafa verið myrt stækkar sífellt. Síðan stærir sig af því að hafa safnað saman lista yfir meira en 100 þúsund Rússa, 44 þúsund Úkraínumanna og um 6 þúsund einstaklinga af öðru þjóðerni sem sakaðir eru um að vera ekki í réttu liði eða hafa tjáð sig á einhvern hátt sem ekki þóknast umsjónarmönnum síðunnar. Meðal erlendra ríkisborgara sem eru á þessum lista eru Gerhard Schröder, fyrrum kanslari Þýskalands, Roger Waters, tónlistarmaður, Zoran Milanovic, forsætisráðherra Króatíu, Roy Jones Jr., íþróttamaður og margir fleiri. Margir Úkraínumenn, þar á meðal Yulia Timochenko, fyrrverandi forsætisráðherra, og nú nýlega Oleksii Arestovych, fyrrum ráðgjafi Zelinskis forseta, eru nú einnig á listanum. Þau frömdu þann glæp að óska eftir friði og samtali við rússneskumælandi íbúa Úkraínu. Athygli vekur að þegar fólk á listanum hefur verið tekið af lífi, eins og urðu örlög blaðamanna á borð við Oles Buzina og Oleg Kalashnikov frá Úkraínu, Andrea Rochelli frá Ítalíu og margra fleiri er svo strikað yfir myndir fólksins með rauðu letri þar sem stendur „útrýmt“. Hér er beinlínis um að ræða dauðalista yfir fólk sem hefur rangar skoðanir eða greina frá óheppilegum, ekki röngum, upplýsingum.
Sumir ráðamenn á vesturlöndum láta sér reyndar ekki nægja að horfa í gegnum fingur sér hvað varðar hótanir og árásir slíkra þriðju aðila á þá sem stunda hugsunarglæpi. Nýlega lenti sjálfstæð blaðakona, Eva Bartlett, í því að bandarískur þingmaður hvatti beinlínis til þess að hún yrði tekin af lífi. Bartlett sendi tíst um viðtal sem hún hafði gert við almenning í borginni Donetsk, en þar komu fram upplýsingar um dvalarstað sinn í borginni. Fyrrum þingmaður breska Íhaldsflokksins, Louise Mensch, valdi að svara tístinu með orðunum „Hear that @SOF_UK?“ og tengdi við sérsveitir úkraínska hersins. Skilaboðin voru skýr; finnið hana og drepið.
Engin viðbrögð eru sjáanleg við fyrir þessum lista eða þessum skýlausu árásum án dóms og laga. Við eigum öll að hrópa saman í kór í fimm mínútna hatri á dag. Sannleikurinn skiptir ekki miklu máli.
Nýr tilgangur blaðamennskunnar
Það er ekkert nýmæli að það getur verið hættulegt að segja sannleikann. Hægt er að segja að grundvöllur vestrænnar heimspeki séu vangaveltur Platóns yfir örlögum lærimeistara síns, Sókratesar, sem var einmitt tekinn af lífi fyrir að tjá sig of hreinskilnislega. Platón varaði við völdum þeirra sem vildu ekki að sannleikurinn kæmi í ljós og svo áróðursmeisturum þeirra tíma, Súfistanna. En eftir 2500 ár, ættum við ekki að vera komin lengra?
Þeir blaðamenn sem þegja þunnu yfir meðferð kollega sinna eru meira en bara gungur; þeir eru fullkomlega meðsekir um glæpi hinna sterkustu. Þeir vanvirða stétt sína og hlutverkið sem þeir eiga að sinna: Að upplýsa almenning og standa vörð um borgaraleg réttindi á borð við tjáningarfrelsið. Með þögn sinni taka þeir virkan þátt í að færa samfélagið aftur til miðalda, þar sem sannleikurinn varð að víkja fyrir kreddu. Þeir eiga ekki að geta kallað sig blaðamenn.
Greinin birtist fyrst á Neistum 7. júní 2023