Afskipti YouTube (Google) af forsetaframboði í BNA

Þann 18. júní sl. fjarlægði YouTube, sem er í eigu Google, viðtal kanadíska sálfræðingsins Dr. Jordan B. Peterson við bandaríska forsetaframbjóðandann Robert F. Kennedy Jr. af vettvangi sínum. 

Kennedy sækist eftir tilnefningu sem forsetaframbjóðandi fyrir hönd demókrataflokksins í bandarísku forsetakosningunum 2024. Skoðanakannanir benda nú þegar til þess að hann sé næst líklegastur til að ná kjöri á eftir Biden, sem þýðir að hann er helsti keppinautur sitjandi forseta. Kennedy telur sig geta fengið atkvæði demókrata sem og margra repúblikana, og unnið þannig baráttuna gegn Trump og sameinað þjóðina í leiðinni undir sinni forystu. 
Talsmaður Google segir þá hafa fjarlægt myndbandið “fyrir að brjóta gegn almennum reglum um upplýsingaóreiðu varðandi bóluefni”. Kennedy og Peterson saka YouTube um að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu forsetakosninga í landinu með þessum tilburðum. Google segir hins vegar að sömu reglur “gildi fyrir alla efnishöfunda á miðlinum, óháð pólitískum skoðunum.”

Kennedy og Peterson saka YouTube um að reyna að hafa áhrif á kosningar

Talsmaður Kennedy segir að „bóluefni séu ekki forgangsverkefni Kennedy í þessu framboði,” og bætir við að hann muni „vera fús til að rökræða málið við hvaða áberandi talsmann hinnar hefðbundnu skoðunar”. Þeir sem horfa á viðtalið sjá að bóluefni eru ekki aðalatriði þess, en í því útskýrir Kennedy hins vegar að hann sé ekki á móti bóluefnum almennt og að hann hafi bólusett börnin sín við ýmsum sjúkdómum – fólk uppnefni hans hins vegar sem andstæðing bóluefna í von um að ófrægja hann og þagga niður í honum. Talsmaður Kennedy segir að “Kennedy trúi því ekki að árásir á hann séu samræmdar,” heldur séu “þessar skoðanir afleiðing af langvarandi áhrifum peninga frá stórfyrirtækjum á læknisfræði, rannsóknir, fjölmiðla og stjórnvöld.”

Það er hins vegar ljóst að YouTube framfylgir reglum sínum af meiri krafti fyrir rásir sem eru líklegar til að ná til margra. Jordan B. Peterson er með 7,21 milljón fylgjendur á YouTube og milljónir manna horfa á viðtölin hans á streymisveitunni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem viðtal hans er fjarlægt af þessum vettvangi. Þann 17 júlí sl. hlóð annar aðili hins vegar upp sama myndbandi, þ.e. viðtali Peterson við Kennedy, í heild sinni – og það stendur enn. Eins er ekki ólíklegt að Kennedy hafi sagt svipaða hluti í öðrum myndböndum sem enn standa á miðlinum, og þau fá að standa. Það er því útlit fyrir að YouTube hafi ekki jafn miklar áhyggjur af því að þessar upplýsingar séu hýstar á þeirra vettvangi, og af því að þær nái til og hafi áhrif á marga.

Samfélagsmiðlar eru mikilvægur þáttur í forsetakosningum í heiminum í dag. Sumir trúa því að Donald Trump hafi einmitt unnið forsetakosningarnar 2016 vegna þess hvernig hann nýtti sér Twitter. Margt ungt fólk fylgist lítið með hefðbundum fjölmiðlum og aflar sér frekar upplýsinga, m.a. um stjórnmálafólk, í gegnum samfélagsmiðla og með því að hluta á löng viðtöl. Þar að auki hafa frambjóðendur mismikinn aðgang að stórum fjölmiðlum sem styðja margir hverjir ákveðna stjórnmálamenn og -hreyfingar hverju sinni. Það er því ekki ólíklegt að samfélagsmiðlar, rétt eins og fjölmiðlar, geti haft áhrif á niðurstöður kosninga með því að stjórna því hvað fólk fær að sjá og hvað ekki.

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni á Twitter rásinni hans Peterson

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *