Ég hafði ekki velt frelsinu mikið fyrir mér fyrr en fyrir fjórum árum, þegar ég var 63 ára. Frelsið var bara þarna, eins og vatnið sem umlykur gullfisk í skál. Svo kom Covid-19 faraldurinn, heiminum var lokað, og áminningar um að „hunskast til að halda sig heima“ blossuðu upp á samfélagsmiðlum. Ekkert frelsi var of mikilvægt til að fórna í nafni almannaheilla: störf, fjölskyldufyrirtæki, listsköpun, opinberar samkomur og félagsleg tengsl sem héldu vonleysinu í skefjum, allt vék fyrir hinu kuldalega viðfangsefni að „bjarga ömmu“ (sem endaði samt með því að fá Covid). Ekkert mátti ræða um siðferðilega valkosti eða hvað væri raunhæft, engrar gagnrýni varð vart frá fjölmiðlum, það var ekkert. Þetta fannst mér rangt í grundvallaratriðum.
Það virtist sem ég væri sú eina meðal vina minna, vinstrisinnaðs millistéttarfólks, sem hefði efasemdir um þennan undarlega nýja heim. Ef ég reyndi, nokkuð hikandi, að koma áhyggjum mínum á framfæri á Facebook eða Twitter, þá skutu netdólgarnir til baka með skítkasti. „Sleiktu hurðarhún og smitastu,“ sagði einn. „Skríddu aftur inn í hellinn þinn, hellisbúi,“ sagði annar. Og uppáhaldið mitt: „Þú ert ert ekkert annað en þroskaheftur Trumpisti“
Frá upphafi skynjaði ég Covid frekar sem heimspekilegt vandamál en vísindalegt. Eins og ég skrifaði oftar en einu sinni, geta vísindi upplýst ákvarðanir okkar, en ekki stjórnað þeim. Það sem á endanum knýr ákvarðanir okkar eru gildin sem við aðhyllumst. Ég leit á Covid sem siðferðilegan kappleik, þar sem frelsi og öryggi tókust á, og það virtist sem öryggið hefði auðveldlega yfirhöndina.
Þetta voru stórfenglegir tímar fyrir heilbrigðisyfirvöld, sem með sífellt flóknari reglum sínum opinberuðu þörf sína fyrir að stjórna: kanadískir framhaldsskólanemar sem þurftu að nota grímur bæði á andlitinu og á blásturshljóðfærum sínum í tónlistartímum, skólabörn sem neydd voru (af hreinlætisástæðum) til að læra á hnjánum tímunum saman í kennslustofu í Alaska, „glory-hole“ kynlífstilmæli frá heilbrigðisyfirvöldum í Bresku Kólumbíu. Skortur á opinberri andstöðu við þessar fáránlegu reglur jók meðvitund mína um hversu brothætt frelsi okkar er.
Ein af fyrstu myndskreytingunum sem birtust í faraldrinum var „muh freedumb.“ Þessi orðruna varð stytting fyrir staðalmynd – húðflúraðan mann í hermannagalla með derhúfu, sem dreifði smitefnum meðan hann hrópaði um réttindi sín. Eiginhagsmunasinnað fífl. Skopmyndirnar héldu áfram að birtast: „Viðvörun, bjarg framundan: haltu áfram að keyra, frelsishetja.“ „Persónulegt frelsi er árátta fullorðinna barna.“ Frelsið, sem í aldaraðir hefur verið grundvöllur lýðræðislegra samfélaga, varð aðhlátursefni.
Á endanum tóku þó raddir þeirra sem studdu frelsið að síast inn í umræðuna. Ég var ekki ein eftir allt saman. Það voru fleiri sem skildu, eins og Janet Daley, blaðamaður á Daily Telegraph orðaði það, að með viðbrögðum sínum við Covid-19 hefðu yfirvöld keyrt yfir „þann þátt mannlegrar reynslu sem gefur einkalífi merkingu og gildi.“ Lionel Shriver harmaði hvernig „í vestrænum heimi hefur frelsi, sem borgarar töldu sjálfsagt fyrir sjö mánuðum, verið afnumið í einni svipan.“ Og Laura Dodsworth fékk mig til að tárast þegar hún skrifaði í bók sinni frá 2021, A State of Fear, að hún óttaðist alræðishyggjuna meira en dauðann.
Þegar bóluefnin voru komin í dreifingu var stríðið gegn samviskufrelsinu kjarnorkuvætt. Ef þú sagðir eitthvað neikvætt um varninginn, eða jafnvel um skylduboðin, varstu „bókstaflega að drepa fólk.“ Fjandskapurinn gegn „óbólusettum“ náði hápunkti á forsíðu Toronto Star með opinberum hatursfullum ummælum eins og: „Mér gæti ekki verið meira sama þótt þau deyi úr Covid. Ekki hið minnsta.“
Þetta gekk þvert gegn sjálfri lífsafstöðu minni. Ég þekkti nokkra einstaklinga sem höfðu neitað bólusetningu, og þau höfðu öll vel rökstuddar ástæður fyrir afstöðu sinni. Ef þau treystu ekki alveg „öruggt og áhrifaríkt“-möntru stjórnvalda og lyfjafyrirtækja, gat ég varla áfellst þau. (Og þetta segi ég sem manneskja sem skrifar fyrir stór lyfjafyrirtæki og fékk fimm Covid-bólusetningar.)
Eitt helsta fórnarlamb Covid-menningarinnar var tjáningarfrelsið, kjarninn í yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi. Sérfræðingar sem töluðu opinberlega um skaða af lokunum stóðu frammi fyrir kerfisbundinni útskúfun frá meginstraumsmiðlum, sérstaklega vinstri sinnaðri fjölmiðlum. Snemma árs 2021 áætlaði Human Rights Watch að að minnsta kosti 83 ríkisstjórnir um heim allan hefðu notað Covid-19 faraldurinn til að brjóta gegn lögmætri tjáningu og friðsömum mótmælum.
„Yfirvöld hafa ráðist á, handtekið, saksótt og í sumum tilfellum drepið gagnrýnendur, brotið upp friðsöm mótmæli, lokað fjölmiðlum og sett óljós lög sem gera tjáningu refsiverða ef hún er sögð ógna lýðheilsu,“ sögðu samtökin í fréttatilkynningu. „Fórnarlömbin eru meðal annars blaðamenn, aðgerðarsinnar, heilbrigðisstarfsmenn, stjórnarandstæðingar og aðrir sem hafa gagnrýnt viðbrögð stjórnvalda við kórónuveirunni.“
En hvað með rangfærslur? Drepa þær ekki fólk? Hér er frétt: Rangfærslur hafa alltaf verið til, jafnvel áður en TikTok kom til sögunnar. Það er hlutverk okkar allra að greina á milli trúverðugra heimilda og bullara. Besta vörnin gegn rangfærslum eru betri upplýsingar, og það er verkefni stefnumótenda að veita þær. Núverandi vísindi byggjast sjálf á þessari togstreitu hugmynda, sem síar út veikari kenningar og færir þær sterkari áfram til frekari prófunar.
Auk þess koma rangfærslur ekki aðeins frá bullurum, heldur einnig frá „opinberum heimildum“ – sérstaklega þeim sem eru settar í það hlutverk að sannfæra almenning frekar en að upplýsa hann. Manstu eftir því þegar Rochelle Walensky, fyrrverandi forstjóri Sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna, fullyrti að „bólusettir beri ekki veiruna?“ Eða þegar Anthony Fauci hélt því fram að bólusetning gerði þig að „lokapunkti“ á smitleiðinni? Fleira þarf ekki að segja.
Markaðstorg hugmyndanna er eins og basar, með miklum hrópum og rifrildi og einstaka stolnu veski – og þannig á það að vera. Þetta er snjallt og ómissandi ferli til að komast að sannleikanum. Fáar hugmyndir eru of heilagar til að efast megi um þær eða of fáránlegar til að íhuga þær. Þess vegna, ólíkt næstum öllum í vinstri sinnuðum vinahópi mínum, hef ég ekkert á móti því hvernig Elon Musk hefur umbreytt gamla Twitter í villta vestrið sem X er núna.
Drifið af reikniritum Musks hefur streymið mitt orðið sannkallaður heimspekilegur basar, þar sem gjörólík sjónarmið rekast hvert á annað, og ég sit og sigta í gegnum rústirnar í leit að einum eða tveimur gullmolum. Hvort sem þú elskar hann eða hatar, þá býður Musk upp á nauðsynlegt mótvægi við hugmyndafræðilega einræðið sem einkennir meginstraumsmiðla. Og þegar kemur að tjáningarfrelsinu hefur Musk sýnt afstöðu sína í verki: Þegar fjölmiðlamaðurinn Keith Olbermann kallaði nýlega eftir handtöku og fangelsun Musks á X, þar sem hann hefur milljón fylgjendur, gerði Musk enga tilraun til að ritskoða hann. Það nægir mér.
Þótt „gömlu venjurnar“ hafi sem betur fer snúið aftur í daglegt líf okkar, fyrir utan einstaka grímu í verslunarmiðstöð eða neðanjarðarlest, hefur stækjan af ritskoðuninni sem blés inn með faraldrinum ekki enn horfið. Árátta gagnvart rangfærslum gegnsýrir samtímann og hefur orðið löggjafarvaldinu í nokkrum vestrænum löndum hvatning til að ritskoða það flæði hugsana og hugmynda sem gefa frjálsu samfélagi líf.
Við getum ekki útrýmt persónulegu frelsi úr lýðræðissamfélaginu, jafnvel ekki í þágu „almannahagsmuna,“ án þess að eitra fyrir rótum lýðræðisins sjálfs. Grein 3 í almennri yfirlýsingu UNESCO um lífsiðfræði og mannréttindi frá 2005 segir þetta skýrt: „Hagsmunir og velferð einstaklingsins ættu að ganga framar hagsmunum vísinda eða samfélagsins í heild.“ Í raunveruleikanum sem við upplifum eftir faraldurinn virðist þessi yfirlýsing næstum barnaleg. En samt tjáir hún eilífa sannleik: að lýðræði má aldrei týna hugmyndinni um frelsið – jafnvel ekki í heimsfaraldri.
Frelsi þarfnast þess sárlega að losna þeim viðjum sem það hefur verið reyrt í sem einhvers konar afgangsstærð. Að þessu reyni ég að vinna af þeim litla mætti sem ég hef: Ég, sem var aldrei mikill aðgerðarsinni fyrir Covid, er nú hluti af litlum hópi sem undirbýr stofnun Free Speech Union í Kanada, sem á sér fyrirmynd í bresku samtökunum með sama heiti sem náð hafa gríðarlegum árangri. Samtökin munu bjóða upp á lögfræðiráðgjöf fyrir einstaklinga sem standa frammi fyrir ritskoðun, útskúfun eða atvinnumissi vegna orða sinna. Ég hlakka til að styðja fólk sem hefur lent í þessum vef andstæðinga frelsisins, þar á meðal þau sem ég er hjartanlega ósammála.
Nýtilkomin áhersla mín á og virðing fyrir málfrelsinu knýr mig einnig til að halda áfram að tala um Covid. Viðbrögðin við faraldrinum fóru langt út fyrir landamæri lýðheilsu og við þurfum að afhjúpa kraftana sem knúðu þau áfram. Eins og Daley segir: „Heimurinn missti vitið. Það er engin önnur leið til að útskýra næstum tortímandi afnám, ekki aðeins tiltekinna réttinda og heimilda, heldur sjálfrar hugmyndarinnar um frelsi.“ Við getum ekki leyft þessu að gerast aftur.
Höfundur er Gabrielle Bauer, margverðlaunaður blaðamaður og rithöfundur í Kanada. Greinin birtist fyrst í Perspective Media og er þýdd og birt með góðfúslegu leyfi.