Ég hef í morgun verið spurður að því hvort framboð Ölmu Möller og Víðis Reynissonar sé heppilegt – og af hverju svo sé eða af hverju svo sé ekki.
Lítum á málið:
Undirliggjandi er væntanlega að um 2-3 ára bil stjórnuðu þau lífi þjóðarinnar – undir forystu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis. Þau gáfu ríkisstjórninni alibí og Alþingi líka og ollu því sennilega öðrum fremur að ríkisstjórnin var endurkjörin 2021. Þá er það líka undirliggjandi – sem er ekki umdeilanlegt að mati stjórnsýslufræðings – að þau, sem handhafar framkvæmdarvalds stjórnuðu sem einræðisherrar, en þeir eru alltaf toppurinn af framkvæmdarvaldinu – og aftengja þingið og aðra fulltrúa almennings.
Þá er það ósagt, sem er af sama meiði, að landsstjórn embættismanna er fágæt og afskaplega óæskileg (enda er ábyrgðarsamband þeirra við þjóðina veikt) og má alls ekki standa í lengri tíma enda þótt jarðskjálftafræðingar, eldfjallafræðingar og aðrir hamfarasérfræðingar geta haft nánast einræðisvöld við ákveðnar aðstæður, en aldrei meira en í nokkra sólarhringa.
Nefna verður í viðbót að sérfræðiþekking stjórnaði landinu í 2-3 ár, sem er einsdæmi í lýðræðissögunni. Fulltrúar almennings, hinna almennu breiðu sjónarmiða sem eru gríðarlega mörg í þjóðfélaginu öllu – eiga og hafa alltaf stjórnað þar sem er lýðræðisskipulag.
Fleira kemur til. Nú er ólga í þjóðfélaginu, ofbeldi meira en áður, skólaástundun lítil og fleiri einkenni. Margir vöruðu við því að langar lokanir, sérstaklega skóla- og íþróttastarfs ungmenna, gætu haft alvarlegar afleiðingar. Öll sjónarmið önnur en „fagleg sjónarmið sóttvarnarfræðinnar“ voru hunsuð, en nú eru jafnvel þessi faglegu sjónarmið véfengd.
Mikilvægt var að vega og meta kosti og galla ólíkra lokanaleiða í faraldrinum – og reyna eins og kostur var á að meta hvaða aðgerðir löguðu meira en þær skemmdu. Ég skrifaði nokkrar greinar um þetta á sínum tíma.
Munum að dánartíðni af völdum sjálfsmorða einna er gríðarlega há núna hjá kynslóðinni sem missti af framhaldsskólanámi í lokununum – en ekki var valið að verja þá sem ungir voru, heldur þá sem voru gamlir og svo hraklegir að heilsu að þeir þoldu ekki faraldurinn – og þeir kallaðir morðingjar sem vildu breiðari forsendur aðgerða.
Flestir íslenskir lögfræðingar sem hafa tjáð sig eru þeirrar skoðunar að einhver og upp í stórfelld mannréttindi hafi verið brotin á þjóðinni – fyrir utan þau brot á stjórnskipaninni og lýðræðinu sem þegar eru nefnd.
Enn verður að bæta í bakgrunnsatriði til að svara spurningunni:
Hávær krafa rís nú víða um hinn vestræna heim að öll framkvæmd sóttvarnaraðgerða og stjórnsýslu í Kóvid-faraldrinum verði rannsökuð – í ljósi reynslunnar og eftirá eins og tíðkast um allar rannsóknir. Þessa kröfu má styðja með stjórnsýslufræðilegum rökum og stjórnskipulegum rökum og er það mitt sjónarmið – aðrir hafa vit á sóttvörnum og bóluefnum, það hef ég ekki.
Ekki er ósennilegt – eftir því sem mannaskipti verða í stjórnmálum og stjórnsýslu á Vesturlöndum (munum að menn rannsaka ekki eigin verk og kalla ekki til sérfræðinga til að rannsaka eigin verk, til þess þarf nýtt fólk) – að viðamiklar rannsóknir verði gerðar á framkvæmd sóttvarnaraðgerðanna og allar hliðar málsins metnar, bæði lýðræðislega, gagnvart mannréttindum og með tilliti til árangurs ólíkra leiða.
Og þá er komið að svarinu:
Alma og Víðir eru tákngervingar sóttvarnaraðgerðanna. Og ef sagan dæmir aðgerðirnar hart, þá verða þau úti í kuldanum. Í bili njóta þau sennilega viðamikils stuðnings, aðgerðirnar voru svo vinsælar að jaðraði við múgsefjun, en mannkynssagan byltir sér alltaf og breytir niðurstöðum sínum.
Þá getur Samfylkingin orðið ábyrg fyrir sóttvarnaraðgerðunum – og hefur komið sér í þá aðstöðu sjálf, meðan hún gat áður falið sig meðal annarra stjórnarandstöðuflokka. Hér er því tekin pólitísk áhætta, bæði vegna mannorðs þessa fólks og ásýndar Samfylkingarinnar.
Með aðkomu Ölmu og Víðis að stjórnmálum tengjast sóttvarnaraðgerðirnar æðstu stjórn ríkisins nánari böndum en áður. Þau bönd hafa verið að trosna, hér eins og annars staðar, einkum með mannabreytingum í æðstu stjórn ríkisins. Eins og þegar er nefnt hefur nýtt fólk komið til valda síðan í faraldrinum og það hefur ekkert á móti því að rannsaka vel gerðir forvera sinna.
Þessi bönd – æðstu stjórnar ríkisins og sóttvarnaraðgerðanna – geta orðið mjög sterk hér á landi, til dæmis ef Alma verður heilbrigðisráðherra (æðsti yfirmaður eigin gerða í faraldrinum) og Víðir verður dómsmálaráðherra (líka æðsti yfirmaður eigin gerða í faraldrinum).
Ef spurt er hvort þau verði vanhæf til að fjalla um eigin gerðir þá er svarið að almennt gilda ekki hæfisreglur fyrir alþingismenn. Hins vegar gilda þar „siðareglur fyrir alþingismenn“ sem þau tvö myndu brjóta ef þau fjölluðu um rannsóknir eða annað sem varðaði þeirra eigin verk.
Ef þau hins vegar verða ráðherrar og yfirmenn í framkvæmdarvaldinu gilda strangar hæfisreglur. Þau myndu verða vanhæf í víðum skilningi gagnvart eigin verkum og þurfa að víkja sæti sem ráðherrar í öllu sem lyti að rannsóknum á sóttvörnum í faraldrinum.
Þá er það ósagt sem mikilvægast er – að nálægð þeirra við vald Alþingis og ríkisstjórnar og sterk pólitísk staða Samfylkingarinnar – getur smitað svo mikið og eitrað andrúmsloftið að stjórnvöld heykist á rannsókn á aðgerðunum, þótt önnur ríki á Vesturlöndum framkvæmi þær hjá sér. Munum að samblástur og ráðabrugg (e. conspiracy) æðstu elítanna er alltaf yfirvofandi hætta, samkvæmt fræðikenningum í stjórnmálafræði.
—–
Að lokum má bæta því við að Alma er landspítalamanneskja – sat þar yfirmannsstöðu og hefur líka sýnt afstöðu sína sem landlæknir til stofnunarinnar – og álitamál er, hjá stjórnsýslufræðingi, hvort Landspítalinn sé lausnin eða vandamálið í heilbrigðiskerfinu.
Birtist fyrst á Facebook síðu höfundar.