Menntun er hjartað í samfélagi okkar. Hún er ekki aðeins leið til að miðla þekkingu, heldur öflugt verkfæri sem gerir einstaklingum kleift að blómstra og nýta hæfileika sína til fulls. En með hraðri þróun tækninnar stöndum við frammi fyrir mikilli áskorun: Getum við haldið í mannlegu gildi menntunar þegar sjálfvirknin fær sífellt meira vægi.
Með tilkomu sjálfvirkra kerfa, gervigreindar og annarra tæknilausna er ljóst að menntakerfi framtíðarinnar verður mjög ólíkt því sem við þekkjum í dag. Sjálfvirkni getur hjálpað nemendum að læra hraðar og kennurum að ná til fleiri nemenda. En það sem er í húfi er meira en bara aukin skilvirkni – það er mannlegi þátturinn.
Ef við leyfum tækninni að taka yfir án þess að varðveita gildi eins og samkennd, innsæi og mannlega dómgreind, gætum við glatað því sem gerir menntun einstaka.
Tæknin getur verið hjálpleg, en hún getur ekki komið í stað kennara sem skilur að hver nemandi er einstakur. Hún getur ekki komið í staðinn fyrir næmt auga kennarans sem greinir þegar nemandi glímir við erfiðleika. Menntun sem snýst eingöngu um sjálfvirkar lausnir verður flöt, vélræn og ópersónuleg.
Það er nauðsynlegt að setja tækninni mörk. Sjálfvirkni án mannlegrar stjórnunar gæti leitt til þess sem við getum kallað “mannauðsmengun” – þegar tæknin dregur úr hæfileikum okkar til að hugsa skapandi, þegar hún þrengir að sjálfstæði nemenda og kemur í veg fyrir að þeir vaxi sem sjálfstæðir hugsuðir. Hættan er sú að við fáum kynslóð sem er hæf í að vinna innan kerfa, en á erfitt með að hugsa út fyrir rammann og finna nýjar leiðir. Þetta er þar sem hugmyndin um hálfsjálfvirkni í menntun kemur inn. Hálfsjálfvirkni felur í sér að tæknin styður við mannleg samskipti og dómgreind, án þess að koma í stað þeirra. Hún auðveldar kennurum skipulag og úrvinnslu verkefna, styður einstaklingsmiðað nám nemenda og eykur skilvirkni. Kennarinn gegnir þó áfram lykilhlutverki með því að veita stuðning, leiðsögn og skapa námsumhverfi sem hvetur til sköpunar og lausnamiðaðrar hugsunar. Sjálfvirkni þarfnast mannvirkni til að skilvirkni verði sjálfbærni
Til að vernda ungmenni gegn skaðlegum áhrifum stafræns umhverfis þarf að beita fjölþættum lausnum, þar sem reglugerðir, fræðsla og aukin ábyrgð tæknifyrirtækja vinna saman. Hér þarf að tryggja að tæknin virki fyrir einstaklinga, ekki öfugt, og stuðli að heilbrigðu umhverfi þar sem ungmenni fá tækifæri til að þroskast á öruggan og jákvæðan hátt.
Við verðum því að tryggja að tæknin sé verkfæri til stuðnings, ekki ráðandi afl. Hálfsjálfvirk menntun býður upp á þetta jafnvægi – þar sem tæknin stígur til hliðar þegar mannleg dómgreind er nauðsynleg og þar sem sköpun, sjálfstæði og samkennd fá að vaxa í takt við tæknina.
Ef menntakerfið okkar nær að innleiða þetta jafnvægi getum við tryggt að nemendur framtíðarinnar fái ekki aðeins tæknilega þekkingu, heldur einnig tækifæri til að þroskast sem sjálfstæðar, skapandi manneskjur sem eru tilbúnar að takast á við áskoranir morgundagsins. Tæknin getur ekki komið í stað mannlegrar dómgreindar. Hún getur aðeins verið viðbót við hana – og það er þar sem framtíð menntunar liggur.