Hugleiðingar um dánaraðstoð og “hála ísinn”

Eftir að lagt var fram frumvarp á vorþingi um svonefnda dánaraðstoð hefur umræða um þetta efni farið vaxandi og sýnist sitt hverjum. Sum lönd hafa þegar lögleitt dánaraðstoð, t.d. Kanada og Belgía, en samkvæmt nýlegri umfjöllun bandaríska tímaritsins The Atlantic vekja afleiðingarnar í Kanada óneitanlega ugg.

Umræða um þetta mál hefur ítrekað komið til umræðu í ritnefnd Krossgatna og stendur til að taka það fyrir á málfundi á vegum Málfrelsis bráðlega. Í síðustu viku birti Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands athygliverðan pistil á Facebook síðu sinni um málið, en Læknafélagið hefur einmitt látið til sín taka í þessari umræðu. Við endurbirtum nú pistil hennar hér.

Ritnefnd


Reynir Tómas Geirsson læknir lagði í það þrekvirki að þýða leikritið „Guð“ eftir Þjóðverjann Ferdinand Von Schirach og var verkið leiklesið í Tjarnarbíói í gær. Verkið fjallar um hinn 78 ára Ríkharð sem missti eiginkonu sína nokkrum árum áður vegna heilaæxlis og voru lokametrar lífs hennar mjög erfiðir. Eftir fráfall hennar hefur hann ekki fundið tilgang eða gleði í lífinu þrátt fyrir að vera alveg heilbrigður og eiga tvo uppkomna syni og barnabörn. Hann á sér þá ósk heitasta að fá að deyja og hefur liðið þannig lengi. Þessa ósk hefur hann lagt fyrir lækni sem hann hefur átt í góðu meðferðarsambandi við árum saman en hún er efins hvort hún sé tilbúin að skrifa fyrir hann lyfseðil upp á banvænan lyfjaskammt.

Samkvæmt lýsingunni í verkinu er búið að útiloka að Ríkharður sé þunglyndur (sem reyndar er auðvelt að setja spurningarmerki við) og hann hefur ekki viljað þiggja lyfjameðferð við þunglyndiseinkennum. Í leikritinu er fjallað um þessa ósk Ríkharðs af hópi sérfræðinga í lækningum, lögfræði og guðfræði, aðilum sem eru sumir fylgjandi dánaraðstoð og aðrir ekki. Lögfræðingur Ríkharðs, stuðningsmaður hans í óskinni að fá að deyja, fer þar með veigamesta hlutverkið og rekur andstæðinga dánaraðstoðar ítrekað á gat enda eru þeir hafðir verr upplýstir en lögfræðingurinn, með ótryggari heimildir og veikari málflutning.

Í lok verksins kusu áhorfendur í sal í leynilegri kosningu um það hvort læknirinn ætti að verða við ósk Ríkharðs um að gefa honum banvænan lyfjaskammt. Niðurstaða kosningarinnar var sú að meirihluti áhorfenda, eða 56%, töldu rétt að verða við ósk hans um aðstoð við sjálfsvíg.

Hér finnst mér komið mjög skýrt dæmi um þessa s.k. „slippery slope“ eða hála ís sem við lendum á ef dánaraðstoð er leyfð. Meirihluti áhorfenda taldi rétt að læknir aðstoðaði fullfrískan mann við að binda enda á líf sitt. Mann sem upplifði engan líkamlega þjáningu en var vissulega í sorg eftir andlát eiginkonu sinnar og óttaðist hennar örlög. Mann sem vildi ekki þiggja þá aðstoð sem þó var í boði.

Hvað ef hann hefði verið 20 árum yngri? Eða 50 árum yngri? Hefði svarið þá verið það sama? Og ef ekki, af hverju ekki? Og á að leggja það á annan einstakling, lækni í tilviki dánaraðstoðar, að skera úr um hvort rök fyrir að fá að deyja í aðstæðum sem þessum séu nógu veigamikil? Er það byrði sem er eðlilegt að leggja á annan einstakling?

Ef það er nóg að upplifa sorg og tilgangsleysi með lífinu til að eiga rétt á að læknir aðstoði mann við að binda enda á það þá falla ansi margir í þann flokk og þá sérstaklega á erfiðum tímabilum þegar sorg og áföll dynja yfir. Sem betur fer líða slík tímabil oftast hjá.

1 Comment

  1. Jóhann G K Gizurarson

    Þetta er kjarni málsins. Eitt er að leyfa dánaraðstoð deyjandi fólks með alvarlega og ólæknandi sjúkdóma; allt annað er normalisera sjálfsvíg andlega veiks fólks.
    En þar sem það er í alvöru orðið örþrifaráð, jafnvel ungs fólks, með andleg veikindi, vekur það spurningar um hvort læknavísindin/heilbrigðisstefnan hafi brugðist þessum hópi?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *