Þegar ég var fjögurra ára fór móðir mín í fyrsta flugið sitt og fyrstu utanlandsferðina, frá Indlandi til Bandaríkjanna, með mig og yngri bróður minn í eftirdragi. Við vorum á leið til föður míns, sem var rafmagnsverkfræðingur og eldflaugafræðingur að mennt, og hafði unnið í bandaríska vegabréfsáritunarlottóinu árið 1970. Hann hafði flutt til New York ári áður en við komum. Þegar við komum var hann að vinna á McDonald’s vegna þess að eftirspurn eftir verkfræðingum hafði hrunið í efnahagssamdrættinum.
Báðir foreldrar mínir – uppaldir á tímum ofbeldisfulls aðskilnaðar Indlands og Austur-Pakistan (nú Bangladesh) – höfðu alist upp við fátækt, móðir mín í fátækrahverfi í Kalkútta. Þau fluttu hingað til lands vegna þess að þau trúðu á ameríska drauminn. Sú trú leiddi til þeirrar velgengni sem faðir minn hlaut að lokum sem verkfræðingur og móðir mín við rekstur leikskóla.
Fjölskyldan okkar hafði svo sannarlega unnið í lottóinu. En að koma til Ameríku þýddi nokkuð mikilvægara en fjárhagslega velgengni.
Ég man árið 1975 þegar hæstiréttur Indlands komst að þeirri niðurstöðu að Indira Gandhi, þáverandi forsætisráðherra, hefði haft ólögleg afskipti af kosningum. Með úrskurðinum varð hún vanhæf til að gegna embættinu. Hún brást við með því að lýsa yfir neyðarástandi, tók lýðræðið úr sambandi, ritskoðaði stjórnarandstöðupressuna og gagnrýnendur ríkisstjórnarinnar og varpaði pólitískum andstæðingum sínum í fangelsi. Ég man hvílíkt áfall það var að verða vitni að þessum atburðum og eftir sameiginlegum létti fjölskyldu okkar yfir því að við vorum í Bandaríkjunum, þar sem það var óhugsandi að slíkt gæti gerst.
Þegar ég var 19 ára varð ég bandarískur ríkisborgari. Þetta var einn af stærstu hamingjudögum æsku minnar. Innflytjendafulltrúinn lagði fyrir mig próf, þar sem meðal annars var spurt um fyrsta stjórnarskrárviðaukann. Það var auðveld spurning, því ég kunni hann utan að. Kjarni þess að vera bandarískur borgari er trúin á tjáningarfrelsið. Ég ímyndaði mér aldrei að þeir tímar ættu eftir að koma að bandarísk stjórnvöld létu sér detta í hug að brjóta þennan rétt, eða að ég yrði skotmarkið.
En því miður brutu bandarísk stjórnvöld á tjáningarfrelsi mínu og samstarfsmanna minna, vísindamanna, meðan á heimsfaraldrinum stóð, fyrir að efast um heimsfaraldursstefnu alríkisstjórnarinnar.
Foreldrar mínir höfðu kennt mér að hér gæti fólk gagnrýnt stjórnvöld, jafnvel þegar um líf eða dauða væri að tefla, án þess að hafa áhyggjur af því að stjórnvöld myndu ritskoða okkur eða þagga niður í okkur. En undanfarin þrjú ár hef ég glatað þeirri sannfæringu. Bandarískir embættismenn, sem starfa í samstarfi við stór tæknifyrirtæki, hafa ráðist á og þaggað niður ummæli mín og samstarfsmanna minna vegna gagnrýni okkar á hina opinberu sóttvarnastefnu – gagnrýni sem hefur reynst á rökum reist.
Það var loks á föstudaginn sem dómstóll úrskurðaði að við værum ekki að ímynda okkur þetta – að Biden-stjórnin hafi sannarlega þvingað samfélagsmiðlafyrirtæki til að ganga erinda sinna. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að forsetaembættið, sóttvarnastofnunin, landlæknisembættið og FBI „hafi tekið þátt í áralangri þrýstingsherferð [gagnvart samfélagsmiðlum] sem ætlað var að tryggja ritskoðun sem samræmdist sjónarmiðum ríkisstjórnarinnar.”
Dómararnir lýstu mynstri þar sem embættismenn hótuðu „grunnumbótum“ eins og „reglugerðarbreytingum og auknu eftirliti“ ef ekki væri hlýtt. Skilaboðin voru skýr, og í anda Al Capone: „Flott fyrirtæki sem þú átt þarna. Það væri synd ef eitthvað kæmi fyrir það.“
Þetta virkaði. Með orðum dómaranna: „…herferð embættismannanna tókst. Fyrirtækin breyttu reglum sínum vegna þrýstings frá stjórnvöldum.”
Með því að afhjúpa þessa hegðun – og lýsa því yfir að hún sé líklega brot á fyrsta stjórnarskrárviðaukanum – er úrskurðurinn ekki bara sigur fyrir kollega mína og mig, heldur fyrir hvern og einn einasta Bandaríkjamann.
Vandræðin hófust 4. október 2020, þegar ég og kollegar mínir—Dr. Martin Kulldorff, prófessor í læknisfræði við Harvard háskóla, og Dr. Sunetra Gupta, faraldursfræðingur við háskólann í Oxford – gáfum út Great Barrington-yfirlýsinguna. Í yfirlýsingunni var hvatt til þess að binda enda á samfélagsleg höft, lokanir skóla og viðlíka takmarkanir, á þeim forsendum að þær sköðuðu unga fólkið og efnahagslega illa setta úr hófi fram, en veittu samfélaginu í heild takmarkaðan ávinning.
Yfirlýsingin mælti með „markvissri vernd“, nálgun sem kallaði á öflugar ráðstafanir til að vernda áhættuhópa, en gera einstaklingum í minni áhættu kleift að snúa aftur til eðlilegs lífs með sanngjörnum varúðarráðstöfunum. Tugir þúsunda lækna og lýðheilsufræðinga skrifuðu undir yfirlýsingu okkar.
Eftir á að hyggja er ljóst að þessi stefna var rétt. Svíþjóð, sem að mestu var laus við samfélagsleg höft og sem, eftir vandamál í byrjun, tók til við markvissa vernd eldri íbúa, var með lægri aldursleiðrétta umframdánartíðni en nánast öll önnur lönd í Evrópu og þar urðu skólabörn ekki fyrir neinu námstapi. Að sama skapi hefur Flórída verið með lægri uppsöfnuð aldursleiðrétt umframdauðsföll en Kalifornía þar sem þráhyggja fyrir lokunaraðgerðum ríkti frá upphafi heimsfaraldursins.
En á sínum tíma litu embættismenn á borð við Anthony Fauci og margir í Trump-stjórninni, þar á meðal Deborah Birx, þáverandi viðbragðsstjóri Hvíta hússins, á tillögu okkar sem eins konar villutrú.
Alríkisyfirvöld tóku strax til við að reyna að þagga niður umfjöllun um Great Barrington-yfirlýsinguna vegna þess að hún stangaðist á við stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Covid-19. Fjórum dögum eftir birtingu yfirlýsingarinnar sendi þáverandi forstjóri National Institute of Health, Dr. Francis Collins, Fauci tölvupóst til að skipuleggja „gereyðingarárás“ á hana.
Næstum umsvifalaust tóku samfélagsmiðlafyrirtæki eins og Google/YouTube, Reddit og Facebook að þagga niður alla umfjöllun um yfirlýsinguna.
Eins og The Free Press greindi frá í skýrslu sinni um Twitter Files, setti Twitter mig á svartan lista árið 2021 fyrir að birta hlekk á Great Barrington-yfirlýsinguna. YouTube ritskoðaði myndband af hringborðsumræðum um opinbera stefnumótun í faraldrinum sem ég tók þátt í ásamt Ron DeSantis, ríkisstjóra Flórída, fyrir þann glæp að segja ríkisstjóranum að vísindaleg rök fyrir því að þvinga börn til að ganga með grímur væru veikburða.
Ég hef verið prófessor í rannsóknum á heilbrigðisstefnu og faraldsfræði smitsjúkdóma við heimsklassa háskóla í áratugi. Ég er ekki í pólitík; ég er ekki í neinum stjórnmálaflokki. Að hluta til er það vegna þess að ég vil varðveita algjört sjálfstæði mitt sem vísindamaður. Ég hef alltaf litið þannig á starf mitt að það snúist um að greina heiðarlega frá niðurstöðum og gögnum, óháð því hvort demókrötum eða repúblikönum líkaði skilaboðin.
En þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst var ráðist að mér vegna meintra pólitískra skoðana minna, og skoðanir mínar á Covid-19 stefnunni og faraldsfræði voru fjarlægðar af alls kyns samfélagsmiðlum. Ég trúði því ekki að þetta væri að gerast í landinu sem mér þykir svo vænt um.
Í ágúst 2022 fengu samstarfsmenn mínir og ég sjálfur loksins tækifæri til að berjast á móti. Dómsmálaráðherrann í Missouri og Louisiana bað mig um að taka þátt sem stefnandi í máli þeirra, sem New Civil Liberties Alliance höfðuðu gegn Biden-stjórninni. Markmið málaferlanna var að binda enda á þátttöku stjórnvalda í þessari ritskoðun — og endurheimta málfrelsi allra Bandaríkjamanna á stafræna torginu.
Lögfræðingar í Missouri gegn Biden málinu kölluðu fyrir fulltrúa margra alríkisstofnana sem tóku þátt í ritskoðuninni til að bera vitni eiðsvarnir, þar á meðal Anthony Fauci.
Í ljós komu víðtæk tölvupóstskipti milli stjórnvalda og samfélagsmiðlafyrirtækja sem sýndu hvernig stjórnvöld voru reiðubúin til að beita reglugerðarvaldi sínu gegn samfélagsmiðlafyrirtækjum sem fóru ekki að kröfum þeirra um ritskoðun.
Leitt var í ljós að tugur alríkisstofnana – þar á meðal sóttvarnastofnunin, embætti landlæknis og forsetaembættið – þrýstu á samfélagsmiðlafyrirtæki á borð við Google, Facebook og Twitter að ritskoða og bæla niður, jafnvel sannar upplýsingar, ef þær stönguðust á við opinberu stefnuna. Til dæmis hótaði Hvíta húsið samfélagsmiðlafyrirtækjum skaðlegum reglugerðabreytingum árið 2021 ef þau þögguðu ekki niður í vísindamönnum sem greindu frá þeirri óyggjandi staðreynd að Covid-19 bóluefnin koma ekki í veg fyrir að fólk smitist af sjúkdómnum.
Engu skipti hvort þær voru sannar eða ósannar, ef upplýsingar fóru í bága við stefnu ríkisstjórnarinnar, þá urðu þær að hverfa.
Á þjóðhátíðardaginn 2023 gaf alríkisdómarinn Terry Doughty út bráðabirgðabann í málinu og skipaði alríkisstjórninni að hætta þegar í stað að þvinga samfélagsmiðlafyrirtæki til að hefta stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi. Í ákvörðun sinni líkti Doughty dómari innviðunum að baki ritskoðun stjórnvalda við sannleiksráðuneyti Orwells. Í úrskurðinum fordæmdi hann hið umfangsmikla alríkisritskoðunarapparat sem hafði tekið sér vald til að úrskurða hvað samfélagsmiðlar mættu birta og hvað ekki.
Ríkisstjórnin áfrýjaði, sannfærð um að henni bæri vald til að ritskoða vísindalega umræðu. Í kjölfarið fylgdi frestun úrskurðarins, sem stóð megnið af sumrinu. En á föstudag ákváðu þrír dómarar áfrýjunardómstólsins að breytt útgáfa bráðabirgðalögbannsins tæki gildi að nýju og fyrirskipuðu stjórnvöldum að hætta að nota samfélagsmiðlafyrirtæki til að vinna skítverkin fyrir sig:
Stefndu, og starfsmenn þeirra og umboðsmenn, skulu ekki grípa til aðgerða, formlegra eða óformlegra, beint eða óbeint, til að þvinga eða hvetja samfélagsmiðlafyrirtæki til að fjarlægja, eyða, þagga niður eða fela, þar með talið með því að breyta reikniritum sínum, efni sem varið er af málfrelsisákvæðum. Þetta felur í sér, en er ekki takmarkað við, að þvinga miðlana til að bregðast við, svo sem með því að gefa í skyn að einhvers konar refsing muni fylgja því ef ekki verði farið að beiðni, eða að hafa eftirlit með, stjórna, eða á annan merkjanlegan hátt hafa eftirlit með ákvarðanatöku miðlanna.
Þegar ég las ákvörðunina varð ég yfirkominn af tilfinningum. Ég held að faðir minn, sem dó þegar ég var tvítugur, hefði verið stoltur af því að ég skuli hafa átt þátt í þessu. Ég veit að mamma er það.
Það er vegna þess að sigurinn er ekki bara sigur minn heldur sigur allra Bandaríkjamanna sem hafa upplifað kúgunarvald þessarar ritskoðunarsamsteypu í heimsfaraldrinum. Úrskurðurinn er sigur fyrir foreldra sem töluðu fyrir einhvers konar eðlilegu lífi barna sinna, en Facebook hópum þeirra var lokað. Hann er sigur fyrir þau sem urðu fyrir skaða af bóluefnunum og leituðu samskipta við aðra í svipaðri stöðu, en voru gaslýst af samfélagsmiðlum og stjórnvöldum og talin trú um að heilsutjón þeirra væri ímyndun ein.
Ákvörðunin veitir nokkra huggun fyrir vísindamenn sem höfðu efasemdir um samfélagslokanir, en ritskoðuðu sjálfa sig af ótta við að verða sakaðir um rangupplýsingar og mannorð þeirra þannig skaðað. Sá grunur þeirra að vísindin væru hætt að virka eðlilega var ekki rangur; vísindi geta einfaldlega ekki starfað án tjáningarfrelsis.
Ákvörðunin er ekki fullkomin. Sumir aðilar í hjarta ritskoðunariðnaðar ríkisstjórnarinnar geta enn skipulagt sig til að bæla niður umræðu. Til dæmis getur netöryggis- og innviðaöryggisstofnunin (CISA) innan heimavarnarráðuneytisins enn unnið með fræðimönnum að því að þróa svarta lista fyrir ritskoðun stjórnvalda. Og National Institute of Allergy and Infectious Diseases (NIAID), gamla stofnun Faucis, getur enn ráðist á vísindamenn sem gagnrýna stefnu stjórnvalda.
En meginniðurstaðan er góð og mikilvæg: alríkisstjórnin getur ekki lengur hótað samfélagsmiðlafyrirtækjum eyðileggingu ef þau stunda ekki ritskoðun fyrir hönd stjórnvalda.
Stjórn Biden, sem hefur sýnt og sannað að hún er óvinveitt tjáningarfrelsinu, mun örugglega áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar. En ég er vongóður um að við vinnum þar, eins og við höfum gert á öllum dómsstigum í þessum málarekstri. Ég er þakklátur fyrir seiglu bandarísku stjórnarskrárinnar, sem hefur staðist þessa áskorun.
En ég get aldrei snúið aftur til hinnar einföldu trúar og barnalega trausts sem ég bar til Ameríku þegar ég var ungur. Ríkisstjórn okkar er ekki ónæm fyrir forræðishyggju. Ég hef lært á erfiðan hátt að það erum aðeins við, fólkið, sem getum dregið ofríkisfull stjórnvöld til ábyrgðar fyrir að brjóta á okkar helgustu réttindum. Án árvekni okkar munum við glata þeim.
Greinin birtist fyrst í The Free Press, 13. september 2023.