Nú hefjast réttarhöld yfir Google vegna brota á samkeppnislögum og fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Réttarhöldin standa næstu tvo mánuði. Google er eitt stærsta og áhrifamesta fyrirtæki í heimi. Það safnar upplýsingum um alla notendur sína, tengir þær saman og selur svo öðrum. Google veit miklu meira um notendur sína en notendurnir sjálfir. Flestir Íslendingar þekkja fyrirtækið og nota afurðir því tengdu daglega við leik og störf. Google fagnar 25 ára afmæli sínu síðar í þessum mánuði en upphaf fyrirtækisins er rakið til dóms á tæknirisanum Microsoft á samkeppnislögum 1998.
Tilgangur samkeppnislaga er að efla virka samkeppni í viðskiptum og nýtingu framleiðsluþátta samfélagsins. Þessu markmiði á að ná með því að vinna gegn samkeppnishömlum og skaðlegri fákeppni, auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum og stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Samkeppniseftirlitið á Íslandi er ungt, eins og kemur m.a. fram í fréttamati á brotum olíufélaganna, en dómsmálaráðherra var gift einum forstjóranna og nú í máli skipafélaganna og Samstöðin hefur flutt fréttir af. Samkeppnisstofnun var stofnuð 1. mars 1993 á grunni Verðlagsstofnunar þegar samkeppnislög nr. 8/1993 tóku við af lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, nr. 56/1978. Samkeppniseftirlitið tók til starfa 1. júlí 2005 með lögum nr. 44/2005.
Í landi kapítalismans, Bandaríkjunum, er samkeppniseftirlit miklu eldra en það varð til með hinum svokölluðu Sherman-lögum árið 1890. Tilgangur laganna er ekki að vernda fyrirtæki gegn virkni markaðarins; heldur að vernda almenning þegar markaðurinn virkar ekki. Lögin beinast ekki gegn hegðun sem telst samkeppnishæf, heldur þeirri hegðun sem á ósanngjarnan hátt hneigist til að eyðileggja samkeppnina sjálfa. Eitt frægasta málið er þegar olíufyrirtæki Johns D. Rockefellers, ríkasta mannsins í Bandaríkjunum, var skipt upp árið 1911. Í kjölfarið hafa mörg fyrirtæki fengið að finna til tevatnsins. Hér má nefna American Tobacco, U.S. Steel, Alcoa, AT&T, IBM og loks Microsoft 1998.
Öll þessi mál haft mikil áhrif á þróun heimsmála og heimsviðskiptanna. Það sem skiptir einkum máli hér er Microsoftmálið sem snerist um einokun fyrirtækisins gegn vafrafyrirtækinu Netscape. Tveir lykilmenn Netscape í málaferlunum, þau Gary Reback og Susan Creighton, vinna nú fyrir Google. en þau sömdu hvítbókina um brot Microsoft sem varð til þess að stjórnvöld ákváðu að taka málið fyrir.
Google-málið kom fyrst til kasta Trumps árið 2020 og hefur haldið áfram í tíð Bidens, núverandi forseta Bandaríkjanna. Þetta er fyrsta mál sinnar tegundar frá því 1998. Í sem stystu máli snýst það um einokunartilburði Googles, sem hefur u.þ.b. 95% markaðshlutdeild, ekki vegna þess að fyrirtækið hafi betri vöru heldur en samkeppnisaðilarnir, heldur vegna einokunartilburða fyrirtækisins. Google eyðir um 45 miljörðum Bandaríkjadala á ári til að halda keppinautum sínum frá markaðnum. Bróðurpartinn fá fyrirtæki eins og Apple, LG, Motorola og Samsung; símafyrirtækin AT&T, T-Mobile og Verizon, auk vafrafyrirtækjanna Mozilla, Opera og UCWeb fyrir að halda keppinautunum frá öðrum leitarvélum. Þetta er gert á nákvæmlega sama hátt og Windows gerði á sínum tíma í Netscape-málinu með því að hafa allar stillingar sjálfgefnar fyrir Google og ekki nokkur leið fyrir venjulegt fólk að komast hjá að versla við þá.
Málið ætti að vera auðsótt því Google er ekki lengur besta leitarvélin: henni hefur hrakað á síðustu tíu árum, og auk þess er nú verið að kæfa notendur með auglýsingum. Þrátt fyrir þetta þykir þetta ekki blasa við og nefna menn fyrst og fremst tvennt samanborið við Microsoft-málið. Í fyrsta lagi ber að hafa í huga það sem Gary Reback hafði á orði þegar hann var spurður um það hvernig Netscape-málið hefði unnist: Svona mál vinnst eingöngu í fjölmiðlum með góðum auglýsingastofum. Microsoft var frekar óvinsælt fyrirtæki í Washington D.C. en Google allra hugljúfi. Það heldur bestu partíin og veitir hæstu styrkina. Hitt atriðið eru starfshættir Googles, sem kann öll pottþéttustu trixin. Þegar Microsoft var dæmt var einn framkvæmdarstjóranna gripinn með allt niðri um sig. Í einu bréfa hans stóð: við verðum að kæfa netaðgang Netscape. Þarna var lykillinn að dómnum. Starfsmönnum Google er bannað að notað orðin markaðshlutdeild og samkeppni. Ekki er enn allt talið: það er ekki nóg með að starfsmenn ljúgi heldur fela þeir upplýsingar og þegar það dugir ekki eyða þeir bara gögnunum.
Samstöðin ætlar að fylgjast með málaferlunum næstu tvo mánuði og birta fréttir eftir því sem þurfa þykir.
Greinin birtist á Samstöðinni 11. september 2023