Omali Yeshitela stofnandi Uhuru-hreyfingarinnar
Samkvæmt ákæru sem gefin var út á vegum dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna þann 18. apríl 2023, hafa fjórir bandarískir ríkisborgarar (sem tengjast allir stjórnmálahreyfingu sem berst fyrir réttindum blökkufólks), verið ákærðir – ásamt þremur Rússum – fyrir að hafa „dreift rússneskum áróðri.” Ef þeir eru sakfelldir gætu þeir átt yfir höfði sér 10 ára fangelsisdóm.
Þeir fjórir Bandaríkjamenn sem hafa verið ákærðir eru allir meðlimir African People‘s Socialist Party og Uhuru Movement (bandarískur stjórnmálaflokkur og alþjóðleg stjórnmálahreyfing sem tengjast nánum böndum). Einn þeirra er Omali Yeshitela, stofnandi flokksins og baráttumaður fyrir réttindum blökkufólks síðan á 7. áratugnum. Þeir hafa talað opinskátt gegn nýlendustefnu, aðhyllast skaðabætur (reparations) fyrir fólk af afrískum ættum, og hafa einnig verið mjög gagnrýnir á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, hafa sagt stríðið í Úkraínu vera hluta af nýlendustríði Bandaríkjanna gegn Rússlandi, þar sem Rússland sé í vörn og í rétti.
Fjallað er um málið hjá Washington Post og Associated Press, en fyrir utan það hefur málið almennt fengið mjög litla athygli. Fjallað hefur verið um málið hjá nokkrum smærri sjálfstæðum miðlum, en nánast ekkert í stóru meginstraumsfjölmiðlunum.
African People’s Socialist Party og Uhuru Movement
Afríski sósíalistaflokkurinn (APSP) og Uhuru hreyfingin voru stofnuð samhliða árið 1972 af Omali Yeshitela. APSP flokkurinn var samruni af þremur „Black Power“ samtökum á meðan Uhuru (sem þýðir „frelsi“ á Svahílí) er alþjóðleg hreyfing flokksins, sem snýst um svokallaðan pan-afríkanisma. Meðlimir APSP nota slagorðið „Black Power“ eins og Black Panthers gerðu á sínum tíma, og nota sömu kveðju þar sem þeir reisa hnefann upp í loft. Þar á undan hafði Omali Yeshitela (þá þekktur sem Joe Waller) stofnað dagblaðið The Burning Spear árið 1968 (heimild), sem gerðist síðan málgagn APSP flokksins, og er enn gefið út og heldur núna einnig úti YouTube-rás.
Helstu stefnumál APSP eru að Bandaríkin borgi skaðabætur fyrir kúgun og þrælahald á blökkfólki í gegnum aldirnar (svokallað „African American Reparations”). Þá leggja APSP mikla áherslu á baráttuna gegn nýlendustefnu, segja blökkufólk í Bandaríkjunum vera „colonized“ ásamt íbúum Afríku enn þann dag í dag. Stefna þeirra snýst um samstöðu með öllu blökkufólki um allan heim, hvort sem það er í Bandaríkjunum eða Afríku, og kalla eftir því að takast höndum saman og sameinist í baráttunni gegn kúgurum sínum. Þá eru meðlimir APSP einnig mjög gagnrýnir á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, einkum þær innrásir og stríð sem Bandaríkin hafa háð, sem og annarskonar afskipti þeirra af öðrum ríkjum víða um heim, sem APSP segja vera kúgaðar þjóðir að berjast fyrir frelsi sínu gegn vestrænum kapítalisma og nýlendustefnu.
Merki flokksins
Fáni flokksins
Húsleitir FBI í júlí 2022 og ákæran gegn Rússanum Aleksandr Ionov
Atburðarásin hófst þann 28. júlí í fyrra þegar alríkislögreglan FBI réðist inn í 7 húsnæði African People‘s Socialist Party (APSP) í St. Louis, Missouri og St. Petersburg, Flórída og gerði þar húsleitir. Democracy Now greindi frá þessu þegar þetta átti sér stað og tók viðtal við Omali Yeshitela, sem segist hafa verið handjárnaður með vopnavaldi ásamt eiginkonu sinni, þegar hernaðarklæddir lögreglumenn mættu á svæðið á brynvörðum bílum, vopnaðir árásarrifflum og réðust inn í húsið með því að brjóta upp hurðina og beita svokölluðum leiftursprengjum (e. flashbang grenades). Vert er að taka fram að Yeshitela er eldri borgari á níræðisaldri. Hann segir að lögreglumennirnir hafi gert tölvur og farsíma samtakanna upptæka ásamt öðrum gögnum. Þegar þetta gerðist hafði Yeshitela ekki verið ákærður, en var ljóst var að ákæra lægi yfir honum sem yrði lögð fram síðar.
Afrísku sósíalistarnir birtu myndefni af þessu áhlaupi FBI á YouTube-rás sinni, þar sem hægt er að sjá brynvörðu bílanna sem lögreglumennirnir mættu á, og hvernig þeir sprengdu svokallaðar leiftursprengjur þegar þeir brutust inn í húsin.
Þessar húsleitir FBI í júlí í fyrra tengdust fyrri ákæru dómsmálaráðuneytisins á hendur Rússanum Aleksandr Ionov, sem var gefin út þann 29. júlí 2022:
Alexander Viktorovich Ionov er pólitískur aktívisti búsettur í Moskvu. Hann er samkvæmt ákærunni sagður starfa fyrir rússnesk stjórnvöld, og í samstarfi við rússnesku leyniþjónustuna (FSB). Hann var ákærður fyrir „samsæri um að láta bandaríska ríkisborgara starfa sem ólöglega útsendara [e. Illegal agents] rússneskra stjórnvalda.” Hann er sagður hafa „skipulagt áralanga erlenda áróðursherferð“ sem „notaði“ stjórnmálahópa í Bandaríkjunum til að „sá ósætti“ (sow discord) í bandarísku þjóðfélagi, „dreifa rússneskum áróðri“, og fyrir að „hafa ólögleg afskipti af kosningum í Bandaríkjunum.”
Þetta eru mest megnis sömu ásakanirnar og þær sem voru síðan lagðar fram á hendur fjögurra meðlima APSP flokksins, þ.á.m. Yeshitela, þann 18. apríl síðastliðinn.
Aleksandr Ionov þessi er fyrrum meðlimur Kommúnistaflokksins í Rússlandi þar sem hann starfaði í ungliðahreyfingu flokksins árið 2009 (heimild). Árið 2011 stofnaði hann samtökin Anti-Globalization Movement of Russia (AGMR), sem snúast um að styðja þjóðfrelsisbaráttu- og „aðskilnaðarhreyfingar“ víða um heim. Samtökin styðja t.d. stjórn Nicolás Maduro í Venesúela og Bashar al-Assad í Sýrlandi. Ionov fagnaði því þegar Rússar innlimuðu Krímskaga frá Úkraínu árið 2014 og er sakaður um að halda uppi „pro-Russia talking points” eftir að Rússland réðist inn í Úkraínu í febrúar 2022.
Ionov klæddur í fána Venesúela, að lýsa yfir stuðningi við sósíalísk stjórnvöld þar í landi.
Í ákærunni er því haldið fram að AGMR samtökin séu fjármögnuð af rússneska ríkinu og Ionov er sagður hafa notað AGMR samtökin til að halda úti „áróðursherferð“ á vegum rússneskra stjórnvalda. „Ionov er sagður hafa skipulagt áróðursherferð sem hafi breytt bandarískum stjórnmálahópum og bandarískum ríkisborgurum í verkfæri rússneskra stjórnvalda,“ sagði Matthew G. Olsen, aðstoðardómsmálaráðherra hjá þjóðaröryggisdeild dómsmálaráðuneytisins, í ákærunni.
Þá er því einnig haldið fram að þessari áróðursherferð Ionov og AGMR hafi verið stýrt af tveimur leyniþjónustumönnum hjá FSB, sem eru nefndir á nafn í ákærunni (Aleksey Borisovich Sukhodolov og Yegor Sergeyevich Popov), og eru einnig gerðir að sakborningum í málinu. Sakborningarnir eru þess vegna þrír Rússar og fjórir Bandaríkjamenn.
Ákæran gegn fjórum meðlimum Afríska sósíalistaflokksins, þ.á.m. Yeshitela (stofnanda flokksins)
Nú verður fjallað nánar um sakagiftirnar í ákærunni á hendur fjórum bandarískum ríkisborgurunum, sem allir eru meðlimir Afríska sósíalistaflokksins (APSP) og Uhuru hreyfingarinnar. Þeir eru sagðir hafa „lagt á ráðin“ um að „sá ósætti í bandarísku samfélagi“ (sow discord), „dreifa rússneskum áróðri“, og fyrir „að hafa haft ólögleg afskipti af kosningum í Bandaríkjunum.“
Ionov er sagður hafa „fengið til liðs við sig” fólk úr „bandarískum stjórnmálahópum” sem „ólöglega útsendara” (e. illegal agents) fyrir rússnesk stjórnvöld. Einnig að hafa „fjármagnað” þessi bandarísku stjórnmálasamtök og „stýrt” þeim með leynilegum aðgerðum.
Þar sem APSP flokkurinn hefur boðið fram í sveitarstjórnarkosningum segir í ákærunni að Ionov hafi verið að „fjármagna” og „stýra” á bakvið tjöldin þeim frambjóðendum sem buðu sig fram fyrir APSP flokkinn í sveitarstjórnarkosningunum í St. Petersburg, Flórída árið 2019.
Þá er einnig sagt að Ionov hafi haldið úti áróðursherferð í gegnum samtökin Anti-Globalization Movement of Russia (AGMR), sem stóð yfir á tímabilinu nóvember 2014 fram til júlí 2022 (eða þangað til fyrsta ákæran gegn Ionov var lögð fram og FBI gerði húsleitir hjá APSP flokknum).
Það er sagt hafa verið hluti af þessari áróðursherferð að Ionov „hafi fengið til liðs við sig” meðlimi APSP flokksins og Uhuru-hreyfingarinnar til að starfa sem „útsendarar” (agents) fyrir Rússland, innan Bandaríkjanna, en eftirfarandi fjórir Bandaríkjamenn eru nefndir á nafn í ákærunni: Omali Yeshitela (stofnandi flokksins) og þrír aðrir aðilar sem gegna leiðtogastöðum í flokknum: Penny Joanne Hess, Jesse Nevel og Augustus C. Romain Jr. (aka Gazi Kodzo).
Ef sakborningarnir eru ákærðir gætu þeir átt yfir höfði sér 10 ára fangelsisdóm. Undir lok ákærunnar er tekið fram að rannsókn málsins stendur yfir.
Einu sönnargögnin sem eru lögð fram eru samskipti á milli meðlima APSP og samtaka Ionovs, sem sýna fram á samstarf og sameiginlega stefnu. Einnig að Ionov hafi sent APSP flokknum nokkur þúsund dollara í fjárstuðning.
Heimsókn Yeshitela til Moskvu árið 2015
Í ákærunni er bent á að Yeshitela hafi þegið boð Ionov um að koma í heimsókn til Moskvu í maí árið 2015, og hafi þar gengið í samstarf með Ionov og hans samtökum „vitandi það að Ionov og AGMR væru að starfa fyrir rússnesk stjórnvöld.”
Því er haldið fram að Yeshitela hafi farið í tvær heimsóknir til Rússlands árið 2015, en sú seinni var í september þegar hann fór á ráðstefnu haldna af AGMR samtökunum sem bar heitið „Dialogue of Nations.” Ákæran lýsir þessu sem „ráðstefnu þar sem fulltrúar aðskilnaðarsinna komu saman.”
„Rússneskur áróður”
En hverskonar „rússneskan áróður” er eiginlega átt við í ákærunni sem meðlimir APSP eru sakaðir um að hafa dreift?
Sem dæmi um þetta segir í ákærunni að Ionov hafi með áróðursherferð sinni í gegnum AGMR samtökin: „reynt að skapa þá ímynd innan Bandaríkjanna að þar væri almennur stuðningur við innlimanir Rússlands á landsvæðum í Úkraínu.” Fyrsta dæmið sem er nefnt, er að í maí 2020 hafi Yeshitela í „myndbandsupptöku” lýst yfir stuðningi við sjálfstæði Alþýðulýðveldisins í Donetsk á Donbas-svæðinu (en þarna virðist vera átt við myndband sem var hlaðið upp á YouTube).
Í ákærunni segir enn fremur:
„Notkun Ionov á Afríska sósíalistaflokknum (APSP) til að halda uppi rússneskum áróðri í Bandaríkjunum hélt áfram eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Daginn sem Rússar réðust inn, þann 24. febrúar 2022, er Ionov sagður hafa sent Nevel [einum af sakborningum í málinu og meðlimur APSP flokksins] tölvupóst með yfirskriftinni ‘MIKILVÆG SKILABOÐ’ sem innihélt ‘pro-Russian talking points’ til stuðnings við innrásina. Þar á eftir, í mars 2022, buðu meðlimir APSP flokksins Ionov nokkrum sinnum í viðtal á myndbandsfundum [sem voru teknir upp á Zoom og birtir á YouTube] til að ræða stríðið, þar sem Ionov hélt því ranglega fram að allir sem styðja Úkraínu styddu einnig nasista og hvíta yfirburðahyggju, og þar sem Yeshitela og annar meðlimur flokksins lýstu yfir stuðningi við Rússland í stríðinu.”
En síðan hvenær er það eiginlega „glæpsamlegt” að segja slíka hluti? Er það glæpur að styðja Rússland? Er það glæpur taka slíkt upp á myndband og hlaða því upp á YouTube? Eða að halda myndbandsfundi á Zoom með rússneskum aktívistum? (rússneskum aktívistum sem ákæran vill meina að vinni fyrir rússnesku leyniþjónustuna FSB). Þetta eru allavega dæmin sem ákæran vísar til og lætur eins og sé hægt að sakfella fólk fyrir það og dæma í tíu ára fangelsi.
Nánar um þessa myndbandsfundi á YouTube, sjá þetta skjáskot af blaðsíðu 29 í ákærunni:
Þarna eru meðlimir APSP flokksins sagðir hafa hlaðið upp myndbandsfundi á YouTube þar sem þeir tóku viðtal við Ionov (í gegnum Zoom). Ionov er sagður hafa haldið því fram í myndbandinu að nasistar væru við völd í Úkraínu og væru að drepa saklaust fólk, og að Rússland hafi ráðist inn í Úkraínu bara til að stöðva manndráp úkraínska hersins á rússneskum borgurum. Í ákærunni er sumsé lýst yfir áhyggjum af því að í þessu myndbandi hafi meðlimir APSP flokksins tekið undir þennan stórhættulega rússneska málflutning, og það er sérstaklega tekið fram að myndbandið hafi fengið „mörg þúsund áhorf” („The APSP had hosted a video conference watched by thousands of people during which participants expressed support for the Russian invasion of Ukraine…” bls. 29-30).
Þegar þetta er skrifað, þá er þetta myndband með hvorki meira né minna en 2175 áhorf á YouTube, og undir myndbandinu eru heilar 7 athugasemdir. En þetta virðist hafa fengið rannsakendur hjá dómsmálaráðuneytinu til að skjálfa á beinunum af hræðslu.
Hér er hægt að horfa á YouTube-myndbandið (birt 13. mars 2022) sem vísað er til á bls. 29 í ákærunni:
Þá er einnig frekar skondið að í ákærunni eru meðlimir APSP sakaðir um að hafa árið 2015 staðið að baki beiðni til Sameinuðu þjóðanna – í samvinnu við Ionov og AGMR samtökin – sem snérist um að fordæma „þjóðarmorð á Afrísku fólki í Bandaríkjunum” (Petition on Crime of Genocide against African People in the United States). Þvílíkur og annar eins glæpur, að senda beiðni til SÞ um að fordæma þjóðarmorð á afrísku fólki í Bandaríkjunum!
Ionov er m.a. sakaður um að hafa sent APSP flokknum hvorki meira né minna en 500 dollara, sem hluti af þessu samstarfi um að útbúa þessa beiðni til SÞ (og dreifa henni síðan á samfélagsmiðlum). Allt í allt er hann sakaður um að hafa sent APSP flokknum nokkur þúsund dollara, á tímabilinu 2014 til 2022. Vert er að taka fram að meðal árslaun í Bandaríkjunum eru $70.000, þannig að nokkur þúsund dollarar á átta ára tímabili getur varla talist mikill peningur.
Málfrelsi
Það eru vissulega margar furðulegar ásakanir sem haldið er fram í ákærunni. En eitt atriði er alveg sérstaklega hlægilegt. Þar segir:
„Rússneska leyniþjónustan hefur vopnavætt málfrelsisréttinn (samkvæmt 1. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna) – frelsi sem Rússland meinar eigin borgurum um – til að sundra bandarísku samfélagi og hafa afskipti af kosningum í landinu.” sagði Matthew G. Olsen aðstoðardómsmálaráðherra hjá þjóðaröryggisdeild dómsmálaráðuneytisins.
Dómsmálaráðuneytið mun ekki hika við að afhjúpa og lögsækja þá sem sá ósætti [sow discord] og spilla bandarískum kosningum til að þjóna fjandsamlegum erlendum hagsmunum, óháð því hvort sökudólgarnir eru bandarískir ríkisborgarar eða erlendir einstaklingar búsettir erlendis.
Sem sagt: samkvæmt Olsen aðstoðardómsmálaráðherra, er blökkufólk sem berst fyrir réttindum sínum og sýnir samstöðu með öðru kúguðu fólki víða um heim (og styður einnig Rússland í stríðinu við Úkraínu) að „vopnavæða málfrelsisréttinn.”
Hann sakar einnig Rússland um að svipta eigin þegnum þessum rétti, sem er kaldhæðnislegt, þar sem hann er sjálfur að taka þátt í að svipta bandaríska ríkisborgara málfrelsisréttinum með þessum ákærum dómsmálaráðuneytisins á hendur þeim.
Eins og segir í ákærunni: „Dómsmálaráðuneytið mun ekki hika við að afhjúpa og lögsækja þá sem sá ósætti.” En síðan hvenær er það að „sá ósætti” skilgreint sem einhver sérstakur glæpur? Má þá ekki gagnrýna stjórnvöld? Ef maður gagnrýnir stjórnvöld, er maður þá bara að „sá ósætti” og þar með að fremja glæp? Mjög hentugt.
Svo er einnig furðulegt sem segir þarna að það skipti ekki máli hvort „sökudólgarnir eru bandarískir ríkisborgarar eða erlendir einstaklingar búsettir erlendis.” Nú, er ekki mikill munur á því að sakfella eigin ríkisborgara sem falla undir lögsögu Bandaríkjanna, eða erlenda einstaklinga (Rússa) búsetta erlendis (í Rússlandi) sem eru utan bandarískrar lögsögu? Maður myndi ætla að bandarískir ríkisborgarar hafi meiri réttindi í Bandaríkjunum heldur en erlendir aðilar búsettir erlendis sem eru án bandarísks ríkisfangs? En greinilega ekki, allavega ekki samkvæmt þessari ákæru.
Caitlyn Johnstone gagnrýnir ákæruna harðlega í gein sem var birt 19. apríl. Sjá einnig umfjöllun Jimmy Dore Show um málið, og umfjöllun Aaron Maté um málið (á Jimmy Dore Show) hér og hér.
Johnstone byrjar greinina á að benda á að Omali Yeshitela hafi sjálfur neitað því að hafa nokkurn tímann unnið fyrir rússnesk stjórnvöld, eins og hann tók fram í viðtali við Tampa Bay Times: „Ég hef aldrei unnið fyrir Rússa. Aldrei. Vandamál þeirra [bandarískra stjórnvalda] er hinsvegar að ég hef aldrei unnið fyrir þá.”
En Johnstone segir það í raun ekki skipta máli hvort Yeshitela hafi unnið fyrir Rússa eða ekki. Það sem skiptir máli er:
„Samkvæmt málfrelsisákvæðinu í fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar er bannað að skerða frelsi fólks til að segja það sem því sýnist, og vera hluti af þeim stjórnmálasamtökum sem því hugnast (hið svokallaða funda- og félagafrelsi). Hvort sem það þýðir að maður styðji Rússland eða hvað sem er. Það skiptir í raun ekki máli hvaða málstað maður aðhyllist. Þetta er stjórnarskrárvarinn réttur…”
Það skiptir sem sagt ekki máli hvort Yeshitela og hinir sakborningarnir hafi „unnið fyrir rússnesk stjórnvöld” eða ekki. Því þetta er fyrst og fremst málfrelsismál. Kjarni ákærunnar er sá að þeir eru sakaðir um að hafa verið ráðnir af rússneskum stjórnvöldum (og verið borgað af rússneskum stjórnvöldum), til að „dreifa rússneskum áróðri.” En Caitlyn Johnstone bendir á að það að „dreifa rússneskum áróðri” er ekki glæpur í sjálfu sér. Í ákærunni eru meðlimir APSP flokksins sakaðir um að „hafa skrifað greinar [og að hafa birt myndbandsupptökur, semsagt á YouTube, eins og var greint áður frá] sem innihéldu rússneskan áróður og misvísandi upplýsingar (disinformation).” En samkvæmt Johnstone er vandamálið við þessa ásökun eftirfarandi:
- Það er í raun ekki hægt að staðfesta hvað getur talist vera „rússneskur áróður” og „misvísandi upplýsingar (disinformation)”, vegna þess að slíkt er ekki mælanlegt. Það er engin algild skilgreining á því. Það er ekki hægt að sammælast um einhverja algilda og skýra á skilgreiningu á því, vegna þess að hún er alltaf óljós og mjög háð túlkun.
- Og jafnvel þó að við gefum okkur að það sú ásökun sé rétt, þá eru áróður og óupplýsingar eitthvað sem fellur undir málfrelsi, sem er þannig varið samkvæmt málfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, og er þess vegna ekki hægt að sakfella fólk fyrir.
Caitlyn Johnstone heldur áfram:
„Yfirvöld geta ekki bara ákveðið sísvona hvenær það er verið að ‘vopnavæða’ málfrelsisréttinn, þar sem þau geta ekki skorið úr um hvað telst sem áróður/óupplýsingar og hvað ekki. Vegna þess að þau munu alltaf skilgreina þessi hugtök á þann hátt sem sem hentar þeim, á þann hátt sem gagnast valdhöfum og þeim valdamiklu, en taka völdin í burtu frá fólkinu. Ríkið getur ekki fyrirskipað hvaða stjórnmálahópar eru lögmætir og hverjir eru ‘verkfæri’ erlendrar ríkisstjórnar, vegna þess að valdhafar munu alltaf skilgreina það á sinn hátt til að framfylgja sínum markmiðum.”
Sem sagt: þessi refsivæðing á ákveðnum málflutningi sem valdhöfum þykir óæskilegur er lítið annað en vopn sem stjórnvöld beita til að þagga niður í gagnrýnisröddum og kremja valdalitla stjórnmálahópa sem þeim líkar ekki við (eins og Afríska sósíalistaflokkinn og Uhuru hreyfinguna).
Caitlyn Johnstone heldur áfram:
„Það er líka gríðarleg hræsni í þessu öllu saman. Bandarísk stjórnvöld eru stöðugt að taka þátt í erlendum áhrifaaðgerðum í gegnum samtök eins og National Endowment for Democracy, sem var sett á laggirnar til að hafa áhrif á kosningar í erlendum ríkjum víða um heim og til að stuðla að stjórnarskiptum, valdaránum og svokölluðum litabyltingum, á þann hátt sem framfylgir hagsmunum stjórnvalda í Bandaríkjunum.”
Og bætir við að lokum:
„Þegar því er haldið því fram að meðlimir APSP flokksins hafi gerst sekir um að dreifa ‘áróðri’ og stuðlað að ‘ágreiningi’ í samfélaginu, þá er í raun átt við að þeir hafi haldið uppi málflutningi og tekið þátt í pólitískum aktívisma sem stjórnvöldum líkar ekki við… Valdhafar hafa í raun ekki áhyggjur af rússneskum áróðri, þeir eru bara hræddir við að þú hættir að hlusta á áróðurinn sem þeir stunda sjálfir.
Málsvörn Yeshitela
Þann 18. mars 2023 flutti Yeshitela ræðu á mótmælafundi hernaðarandstæðinga í Washington, D.C. (anti-war rally) þar sem hann svaraði fyrir sig. Ræðan var flutt áður en ákæran á hendur honum og öðrum þremur meðlimum APSP flokksins var lögð fram (þann 18. apríl 2023). En eins og sést í ræðunni þá vissi hann að þessar ákærur voru yfirvofandi, en á þeim tíma voru fjórmenningarnir kallaðir „unindicted co-conspirators.”
Í ræðunni (sem var einnig hlaðið upp hér) byrjar hann á að segja frá húsleit FBI þegar hann var handjárnaður með vopnavaldi, og heldur svo áfram og bregst við ásökunum á hendur sér:
„Þeir segja, að þrátt fyrir að ég hafi barist gegn þessu kerfi í flest þau 81 ár sem ég hef lifað, að þrátt fyrir að ég hafi alltaf verið á móti öllum stríðum sem Banaríkin hafa háð (eða tekið þátt í) – Þá hafa þeir lýst því yfir að svart fólk sé svo heimskt að það þurfi Rússa til að segja okkur að við séum kúguð! Ég hef aldrei upplifað frelsi fyrir svart fólk allt mitt líf… Og samt segja þeir að við séum að vinna fyrir eitthvað erlent ríkisvald! Vegna þess að við segjum að svart fólk verði að fá að vera frjálst. Vegna þess að við segjum að Afríka verði að vera frjáls. Vegna þess að við segjum að Afríkubúar alls staðar verði að vera frjálsir. Og við erum hér í dag til að segja þeim að þeir hafi ekki nógu mikið af leifursprengjum (flashbang grenades) í vopnabúrinu sínu til að stöðva þessa baráttu blökkumanna og kúgaðra þjóða um allan heim til að berjast fyrir frelsi okkar.”
Hægt er að lesa alla ræðuna í heild sinni hér.