Þótt ég deili svo sannarlega sameiginlegri gremju bresku þjóðarinnar í kjölfar opinberana WhatsApp-skilaboða Matts Hancock fyrrum heilbrigðisráðherra, sem lekið hefur verið, fylgir þeim sérstakt viðbótarlag af gremju fyrir mig persónulega. Því skilaboðin staðfesta það sem ég hef frá upphafi verið sannfærður um: Öll Covid-19 viðbrögðin voru ekki annað en pólitískur leikur stjórnvalda og grófara ofríki en sést hefur áratugum saman, jafnvel frá upphafi.
Ég var svo sannfærður um þetta að árið 2020 fór ég í mál gegn stjórnvöldum vegna lokunaraðgerða þeirra, með það að markmiði að stöðva þær. Þessi WhatsApp skilaboð staðfesta mikið af því sem við reyndum að draga fram í málinu. Ég tel að ef dómstólar hefðu haft aðgang að þessum skilaboðum, eða ef stjórnvöld hefðu verið heiðarleg fyrir dómstólum, hefðu hlutirnir farið allt öðruvísi.
Skoðun dómarans í máli mínu var sú að stjórnvöld þyrftu að hafa mjög víðtækt svigrúm á tímum „neyðarástands“. En það sem WhatsApp skilaboðin sýna glöggt er að það var ekkert „neyðarástand“ sem réttlætti slíkar fordæmalausar takmarkanir á frelsi okkar. Chris Whitty landlæknir lýsti því sjálfur yfir að Covid-19 væri vírus með „svo lága dánartíðni“ að ástæðulaust væri að hraða dreifingu bóluefna. Hvernig var þá hægt að réttlæta alvarlegustu takmörkun persónulegs frelsis sem sést hefur í nafni þessa „neyðarástands“?
Lögfræðingar ríkisstjórnarinnar sögðu dómstólnum að ákvarðanir þeirra byggðu á vísindum – slagorð þeirra „að fylgja vísindum“ mun enduróma í meðvitund almennings um ókomin ár. En þegar lesið er í gegnum þessi WhatsApp skilaboð er þó ljóst að ákvarðanatakan grundvallaðist öll á algeru virðingarleysi gagnvart „vísindunum“ nema ef niðurstöður þeirra hæfðu áformum ríkisstjórnarinnar.
Skilaboðin sýna fjölmörg dæmi um þetta, þar á meðal hvernig Hancock hafnaði óskum landlæknisins Chris Whitty um að slaka á einangrunarreglum og hvernig heilbrigðisyfirvöld vissu að engin læknisfræðileg rök stóðu til þess að takmarka fjölda barna sem koma mættu saman við sex alls; það var forsætisráðherrann sem krafðist þess.
Hefði ríkisstjórnin verið heiðarleg frammi fyrir dómstólum, og raunar gagnvart þjóðinni, tel ég að niðurstaðan kynni að hafa orðið okkur í hag og við stæðum þá ekki frammi fyrir hinum grafalvarlegu afleiðingum lokananna nú. Efnahagsástand okkar væri mun betra og stöðugra, heilbrigðiskerfið hefði ekki verið lagt í rúst, við hefðum getað verið með ástvinum okkar á dánarbeðinum – ég gæti haldið endalaust áfram, og þetta eru aðeins þær afleiðingar sem við vitum af nú þegar.
Og til hvers? Hugmyndin var sú að þessar lokanir myndu bjarga mannslífum og koma í veg fyrir óhófleg dauðsföll. Hins vegar þarf ekki annað en að horfa til Svía, sem völdu að fara ekki hina hroðalegu haftaleið, til að sjá að þetta var víðsfjarri lagi. Nýjasta greining WHO sýnir að árin 2020 og 2021 var meðaldánartíðni í Svíþjóð 56 af hverjum 100.000 – samanborið við 109 í Bretlandi, 111 á Spáni, 116 í Þýskalandi og 133 á Ítalíu.
Þessi upplýsingaleki felur því í sér súrsæt skilaboð fyrir mig. Ég hef fengið sönnun þess að það sem mig grunaði allan tímann var satt. En það er ákaflega súrt í broti að þessar upplýsingar hafi ekki legið fyrir þegar mál mitt var fyrir dómi, því þá hefði okkur tekist að koma í veg fyrir allar þessar tilgangslausu þjáningar. Við verðum að læra af þessu og tryggja að stjórnvöld komist aldrei framar upp með slíkt ofríki.
Greinin birtist fyrst í Conservative Woman og er birt með góðfúslegu leyfi.
Þorsteinn Siglaugsson þýddi.